Efling fjarnáms

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 15:33:43 (3497)

2003-02-05 15:33:43# 128. lþ. 73.9 fundur 534. mál: #A efling fjarnáms# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[15:33]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég þakka umræðuna og hæstv. ráðherra upplýsingarnar. Athyglisverð er sú þróun að 500% fjölgun hafi orðið í fjarnámi síðustu árin og er það vel. En um leið harma ég að ekki sé í bígerð að grípa til sérstakra aðgerða er varða námstilboð fyrir þá sem eru atvinnulausir af því að margoft hefur verið sýnt fram á það að aukin menntun og greiður aðgangur að ókeypis menntun er eina vitræna og skynsamlega leiðin fyrir atvinnulaust fólk aftur inn á vinnumarkaðinn, og eina aðgerðin sem hægt er að grípa til þannig að búið sé svo um hnúta að atvinnulaust fólk eigi sér von um að fá góða og sómasamlega vinnu við sitt hæfi á markaði þar sem það hefur náð sér í aukna fagþekkingu í gegnum fjarnám eða einhvers konar endurmenntun.

Ég vil aftur vekja athygli á því sem ég kom inn á áðan og hv. þm. Karl V. Matthíasson nefndi að mjög brýnt er að tryggja það að fjarnám við fjölbrautaskólana og háskóla landsins verði ekki gert að féþúfu neins konar. Fram hefur komið og ég nefndi það áðan að skólagjöld við fjarnám í fjölbrautaskólanum í Ármúla hafa hækkað um 441%, herra forseti. Um er að ræða gríðarlega hækkun sem kemur augljóslega í veg fyrir að margt efnaminna og fátækt fólk geti sótt sér mikilvæga þekkingu í gegnum fjarnám og stundað þannig nám með öðru og með vinnu. Það að láta nemendur í fjarnámi greiða fyrir ýmiss konar kostnað í skólunum sem fellur á vegna kennslu nemenda sem eru í fullu námi er óréttlátt, herra forseti.