Úrskurður ráðherra um Norðlingaölduveitu

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 15:48:48 (3501)

2003-02-05 15:48:48# 128. lþ. 73.95 fundur 407#B úrskurður ráðherra um Norðlingaölduveitu# (umræður utan dagskrár), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[15:48]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að segja að úrskurður hæstv. setts umhvrh. kom mér á óvart. Hann kom mér á óvart fyrir þá hugvitssemi sem í honum var sýnd og ég er þeirrar skoðunar að með honum hafi unnist ákaflega mikilvægur varnarsigur fyrir okkur umhverfissinna sem höfðum barist fyrir björgun Þjórsárvera. Þó að hæstv. settur umhvrh. vilji ekki túlka úrskurð sinn mjög djúpt þá segir hann eigi að síður: Úrskurðurinn túlkar sig sjálfur. Og það er einmitt það. Þegar ég skoða þennan úrskurð sé ég þar þrennt sem skiptir ákaflega miklu máli.

Í fyrsta lagi er þar veitt fordæmi sem umhverfisráðherrar framtíðarinnar hljóta að fylgja sem felst í því að mörk opinbers friðlands eru ekki skert.

Í öðru lagi skiptir ákaflega miklu máli að hæstv. settur umhvrh. virðir alþjóðlega samninga, hann virðir Ramsar-samninginn og í máli hæstv. ráðherra hefur komið fram að það var eitt af því sem hann tók og hafði til hliðsjónar í úrskurði sínum.

Í þriðja lagi vil ég persónulega hrósa hæstv. ráðherra sérstaklega fyrir það að hann virti rannsóknarskylduna. Hæstv. ráðherra tók málið og rannsakaði það til hlítar, hann braut það til mergjar og hann kom að lokum með úrskurð sem braut í blað að ýmsu leyti, sem tók tillit til margra krafna umhverfissinna en gerði það jafnframt að verkum að hægt er að ná mikilli orku út úr þessari framkvæmd.

Herra forseti. Þegar ég lít yfir sviðið staldra ég að sjálfsögðu við þátt Landsvirkjunar. Þegar höfð eru til hliðsjónar þau miklu átök sem hafa orðið um þetta mál, hvernig má það þá vera, herra forseti, að Landsvirkjun kemur ekki fram með þessa lausn og meira að segja tuðar yfir henni, lausn sem hefði gefið fyrirtækinu stóran hluta af þeirri orku sem það vildi fá út úr þessu fyrir verð sem er minna en sem nemur einum barnaspítala?

Herra forseti. Allir hefðu getað orðið sigurvegarar í þessu máli. Það var einn aðili sem tapaði og það var Landsvirkjun.