Úrskurður ráðherra um Norðlingaölduveitu

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 15:53:20 (3503)

2003-02-05 15:53:20# 128. lþ. 73.95 fundur 407#B úrskurður ráðherra um Norðlingaölduveitu# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[15:53]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég tel að niðurstaða setts umhvrh. í þessu máli sé mjög ásættanleg og það eigi allir að geta unað nokkuð vel við þann úrskurð. Ég tel að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að fá að nýta vatnsorkuna á hálendinu en það ber vissulega að gera með fullri virðingu fyrir náttúrunni. Ég tel að þessi niðurstaða eigi að vera ásættanleg fyrir bæði náttúruverndarsinna og þá sem vilja nýta orkuna og nota hana til aukinna starfa og uppbyggingar hér á landi.

Þó að hagkvæmnin af þessari framkvæmd minnki eitthvað örlítið fyrir Landsvirkjun, um 10--15%, þá tel ég eðlilegt að sú fórn hafi verið færð og jafnvel þó að hagkvæmni hefði orðið eitthvað minni en það. Það verður auðvitað að virða hlutina í því samhengi sem þeir eru settir fyrir framtíðina.

Það er samt eitt atriði sem ég vil koma inn á sem tengist ekki beint þessu máli en mér virðist skorta á í umræðunni um náttúruvernd og náttúrugildi. Oft hafa verið deilur um ýmsar framkvæmdir á nátturusviði. Mér finnst skorta á það, herra forseti, að þegar þeim deilum lýkur og menn eru búnir að horfa á viðkomandi framkvæmd í notkun í nokkur ár, sé ekki skoðað í raunveruleikanum hvað það var sem við gerðum. Það hefur aldrei verið skoðað eftir að rifist var um Gilsfjörð hvort rauðbrystingarnir koma þar við eða ekki. Og það er ýmislegt fleira í þá veru.