Úrskurður ráðherra um Norðlingaölduveitu

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 16:02:13 (3507)

2003-02-05 16:02:13# 128. lþ. 73.95 fundur 407#B úrskurður ráðherra um Norðlingaölduveitu# (umræður utan dagskrár), KF
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[16:02]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Úrskurður setts umhvrh. markar að mínu mati tímamót vegna þess að með honum rétta stjórnvöld sáttarhönd til náttúruverndarsinna sem unnið hafa sleitulaust að því að tryggja verndun Þjórsárvera. Einna þygstur á metunum er að mínu áliti þáttur heimamanna í Gnúpverjahreppi. Í úrskurðinum leggur ráðherra fram málamiðlun, róttæka tillögu sem undirstrikar að sérstæða og viðkvæma náttúru Þjórsárvera beri að vernda í samræmi við friðlýsingu þeirra frá 1982 og alþjóðlega samninga um verndun votlendis.

Í frábærri grein eftir Elínu Pálmadóttur í Morgunblaðinu 15. nóv. sl., Ég ákæri, lýsir hún Þjórsárverum sem stórkostlega fögru djásni undir jökulhettu, umluktu svörtum gróðurlausum söndum. Slík voru einnig mín hughrif þegar ég kom í Þjórsárver.

Það skilyrði er sett að framkvæmdirnar hafi ekki áhrif innan friðlands Þjórsárvera. Rétt er í því ljósi að líta á tillögu um setlón ofarlega við Þjórsá sem sett er fram sem mótvægisaðgerð en því má halda fram að þar sé á ferðinni ný útfærsla á 6. áfanga Kvíslaveitu sem hafnað var á fyrri stigum. Sagt er að setlónið sé sett vegna óvissu um árangur við aurskolun úr Norðlingaöldulóni. Ef aurskolunin virkar hins vegar er ekki þörf fyrir setlón. Þess vegna tel ég rétt að náttúran njóti vafans. Mér finnst ótímabært að ákveða að gert skuli setlón og vatni veitt fram hjá Þjórsárverum.

Herra forseti. Efst í huga mínum eru þakkir til hæstv. setts umhvrh. og samstarfsmanna hans fyrir réttlát og vönduð vinnubrögð og til náttúruverndarsinna, einstaklinga og félagasamtaka fyrir ötult og fórnfúst starf. Ég hvet þá til að taka í þá útréttu sáttarhönd sem þeim er hér rétt.