Úrskurður ráðherra um Norðlingaölduveitu

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 16:06:45 (3509)

2003-02-05 16:06:45# 128. lþ. 73.95 fundur 407#B úrskurður ráðherra um Norðlingaölduveitu# (umræður utan dagskrár), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[16:06]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Farsæl lausn er fundin á mjög viðkvæmu máli. Settur hæstv. umhvrh. hefur lagt sig fram í málinu af mikilli alúð. Hann fann lausn sem sátt er um. Það skiptir auðvitað mjög miklu máli og náttúran nýtur þar vafans.

Hæstv. ráðherra hefur sett sér þrenns konar markmið: Ramsar-sáttmálinn er virtur, alþjóðlegur sáttmáli sem skiptir mjög miklu máli að virða. Friðland er virt og líffræðilegur fjölbreytileiki helst á þessu svæði, sem er raunar einstakt í íslenskri náttúru.

Ég tel það til marks um að þessi niðurstaða er góð að bæði Landsvirkjun og Vinstri grænir eru í hálfgerðri fýlu yfir málinu. Það er táknrænt fyrir það að þessi niðurstaða er góð niðurstaða og góð lausn í þessu máli. Það ber að þakka fyrir góð vinnubrögð hæstv. ráðherra, fyrir það hvernig hann hefur unnið að þessu máli, talað við fjölmarga einstaklinga, félagasamtök o.s.frv. Hér er um að ræða sátt við bæði menn og náttúru. Þetta sýnir auðvitað og sannar að það má treysta Framsfl. í þessum efnum sem og öðrum.