Úrskurður ráðherra um Norðlingaölduveitu

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 16:08:36 (3510)

2003-02-05 16:08:36# 128. lþ. 73.95 fundur 407#B úrskurður ráðherra um Norðlingaölduveitu# (umræður utan dagskrár), Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[16:08]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. settum umhvrh. fyrir svörin og fyrir þessa umræðu. Svör hæstv. ráðherra voru efnisleg eins og við mátti búast, málefnaleg en ekki ýkja efnismikil.

Það er með þennan úrskurð setts umhvrh. eins og önnur mannanna verk að hann ber að skoða á efnislegum forsendum og segja á honum bæði kost og löst. Það hef ég gert og það gerum við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði. Við viðurkennum hið jákvæða í þessum úrskurði en höldum til haga þeirri sannfæringu okkar að best hefði verið að fella niðurstöðu skipulagsstjóra með öllu úr gildi og hverfa frá öllum framkvæmdaáætlunum á þessu svæði.

Það er þannig hvað mig varðar að þegar ég berst fyrir málstað sæki ég þann málstað til sigurs en auðvitað er jafntefli betra en ósigur. Hitt er annað mál að kannski getur framsóknarmennska komist á það stig að menn velji jafntefli frekar en sigur. Mér heyrist það á talsmönnum Framsfl. Að öðru leyti legg ég til að þeir hv. þm. Magnús Stefánsson og aðrir haldi ódýrar framboðsræður sínar annars staðar en hér. Ég held að þeir fjölgi ekki þessum 12 atkvæðum sem Framsfl. væntanlega á hér á þingi hversu margar ræður af því tagi sem þeir halda.

Herra forseti. Það er athyglisvert að hæstv. ráðherra færði að mínu mati ekki fram sannfærandi rök fyrir því að fallast á niðurstöðu Skipulagsstofnunar um lón í 575 metra hæð yfir sjó en koma því svo fyrir með skilyrðum að í reynd verði um allt aðra framkvæmd og lónhæð í 566 metrum að ræða. Ég held að það eigi eftir að fara miklu betur ofan í saumana á mörgum álitamálum af þessu tagi sem vakna í tengslum við úrskurð ráðherra og þegar þetta mál er skoðað í heild sinni. Þá vakna áleitnar spurningar um framgöngu Landsvirkjunar, framgöngu Skipulagsstofnunar, samskipti vísindamanna, framkvæmdaraðila og stjórnvalda og margt fleira, herra forseti. Ég hygg að enn eigi mörg kurl eftir að koma til grafar í þessu máli.