Úrskurður ráðherra um Norðlingaölduveitu

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 16:10:56 (3511)

2003-02-05 16:10:56# 128. lþ. 73.95 fundur 407#B úrskurður ráðherra um Norðlingaölduveitu# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[16:10]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram. Ég endudrtek að ég lagði áherslu á að þessi úrskurður væri skýr. Ég tel að það hafi borið þann árangur að víðtæk sátt sé um úrskurðinn. Það hef ég fundið alveg greinilega og meiri viðbrögð við þessu máli heldur en ég hef nokkurn tíma fundið áður síðan ég byrjaði í stjórnmálum.

Hér hefur verið drepið á þátt Landsvirkjunar. Ég vil segja það að Landsvirkjun stóð með undanþágu í höndunum upp í 581 metra (Gripið fram í.) en sló af því ofan í 575 metra. Landsvirkjun horfði á hagkvæmni í þessu máli en við fórnuðum hluta af hagkvæmninni fyrir náttúruna eins og tekið var fram áðan.

Í öðru lagi vil ég koma aðeins nánar inn á veitulónið. Það er skilyrði fyrir því að úr því sé veitt vatni í efsta hluta veranna til að halda grunnvatnsstöðu þar eðlilegri og varðveita efsta hlutann. Að auki er veitulónið náttúruvænt að því leyti að það kemur í veg fyrir flóð niður í verin sem geta haft slæm áhrif á verin. Hins vegar er það forsenda fyrir þessari leið að veita hluta af vatni úr veitulóninu austur í Þjórsárlón. Það er alveg ljóst. Þess vegna er þetta setlón að það er hluti af framkvæmdinni, hluti af því að gera þessa framkvæmd náttúruvænni en hún var fyrir úrskurðinn.

Ég endurtek að um þennan úrskurð virðist víðtæk sátt í samfélaginu. Ég vona að hann verði öllum til góða, bæði atvinnulífi og náttúruvernd.