Staða almannavarna

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 10:31:33 (3512)

2003-02-06 10:31:33# 128. lþ. 74.91 fundur 409#B staða almannavarna# (aths. um störf þingsins), LB
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[10:31]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að lýsa því yfir að ég hef miklar áhyggjur af stöðu almannavarna í augnablikinu. Nú liggur það fyrir að Almannavarnir ríkisins hafa dottið út af fjárlögum og hafa því ekki fjárframlög frá ríkisvaldinu. Það liggur líka fyrir að í þinginu er frv. til laga um almannavarnir þar sem ætlunin er að færa almannavarnir undir ríkislögreglustjóra, sem mikil óeining er um. Því er ljóst að það mun taka talsverðan tíma að afgreiða þetta mál í þinginu.

Ég veit ekki hvort hv. þm. átta sig almennt á því að almannavarnir eru yfirhattur á þessum þætti í starfsemi ríkisvaldsins og er ætlað að sameina löggæslu eða samhæfa slökkvilið, lækna, björgunarsveitir, sjúkraflutningamenn, vegagerð, fjarskipti, fjölmiðla o.s.frv.

Það er líka ljóst að sú stofnun sem núna fer með þessi verkefni og stendur frammi fyrir því að vera án framlaga á fjárlögum til stofnunarinnar er að sjálfsögðu að liðast í sundur. Við höfum fengið þessar upplýsingar frá framkvæmdastjóra Almannavarna. Eins hefur komið fram að í þeim frumvörpum sem nú liggja fyrir þinginu, sem hæstv. dómsmrh. lagði fram 12. des. sl., tveimur dögum fyrir jólahlé, er hvorki gert ráð fyrir að hafa samráð við fulltrúa frá Almannavörnum né fulltrúa frá ríkislögreglustjóra sem ætlað er að taka þessi verkefni yfir. Því beini ég eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. dómsmrh.: Hver er staða almannavarna nú í augnablikinu? Hver er staðan ef eitthvað kemur upp á á næstu vikum eða mánuðum? Stofnunin er að liðast í sundur. Enn eru í gildi lög um tiltekið skipulag en engin framlög úr ríkissjóði til að standa undir því skipulagi. Sex manns vinna í stofnun ríkisins sem ekki hefur nein fjárframlög.

Það liggur líka fyrir að mikil óánægja er með fyrirliggjandi frumvarp og því held ég, virðulegi forseti, að í stöðunni, þar sem enn er hávetur, sé mikilvægt að hæstv. dómsmrh. skýri fyrir þinginu hvernig hún hyggst bregðast við ef eitthvað kemur upp á.