Staða almannavarna

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 10:33:58 (3513)

2003-02-06 10:33:58# 128. lþ. 74.91 fundur 409#B staða almannavarna# (aths. um störf þingsins), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[10:33]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Þetta er afar sérstök uppákoma hjá hv. þm. sem á sjálfur sæti í allshn. og er að vinna að þessu máli. Hann veit mætavel um stöðuna og hefur fengið allar upplýsingar um hvað til stendur að gera og hver staða almannavarna er. Staða almannavarna hér á landi er í góðu lagi. Varðandi fullyrðingar hv. þm. um að stofnunin hafi ekki fengið fjárframlög, þá er það bara misskilningur. Þegar það var ljóst að nefnt frv. yrði ekki afgreitt fyrir jól var gert samkomulag við fjmrn. og þannig gengið frá málum að tryggt væri að áfram yrðu sömu fjárframlög til yfirstjórnar Almannavarna og verið hafa. Þannig hafa engar breytingar orðið í þessu kerfi.

Hitt er aftur annað mál að með þeirri breytingu sem lögð er til í frv. er gert ráð fyrir að færa yfirstjórn Almannavarna undir ríkislögreglustjóra í þeim tilgangi að stofna sérstaka sameiginlega björgunarmiðstöð sem langflestir þeirra sem koma að björgunarmálum hér á landi telja mikið framfaraskref og ákaflega mikilvægt. Það sést náttúrlega af umsögnum sem berast með þessu frv. Hv. þm. þarf því ekki að hafa áhyggjur af stöðu mála.

Hins vegar er alveg jafnljóst að það er óvanalegt að slík staða komi upp. Frumvarpið náði ekki fram að ganga eftir afgreiðslu fjárlaga en að ég vona svo sannarlega að hv. allshn. geti afgreitt þetta mál sem fyrst. Ég vil taka það fram að haft var fullt samráð við bæði fulltrúa frá ríkislögreglustjóra, formann almannavarnaráðs og framkvæmdastjóra almannavarnaráðs um leið og þessar hugmyndir voru ræddar í sumar. Þetta voru fyrstu aðilarnir sem kynnt var þetta verkefni. Það er mjög sérstakt að segja að þar hafi ekki verið neitt samráð á ferðinni.

Ég vil líka undirstrika að hér er um að ræða mjög einfalda breytingu. Það þarf hins vegar að endurskoða alla löggjöfina um almannavarnir og það verður gert, en allt kerfið er nú óbreytt um allt land.