Staða almannavarna

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 10:36:23 (3514)

2003-02-06 10:36:23# 128. lþ. 74.91 fundur 409#B staða almannavarna# (aths. um störf þingsins), GÖ
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[10:36]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Hér er verið að hreyfa afar mikilvægu máli. Miklu hagsmunamáli fyrir alla landsmenn, stöðu almannavarna. Ég vil árétta að spurning um björgunarmiðstöð er eitt og almannavarnaráð er annað. Með frumvarpinu er verið að ógna allri þessari samhæfingu og leggja almannavarnaráð niður án samráðs við viðkomandi aðila. Það kom skýrt fram á fundi allshn. að ekki var haft samráð við þessa aðila.

Það má líka spyrja sig hvort dómsmrn. ætli ekki að flytja líka undir ríkislögreglustjóra. Það er talið mjög óeðlilegt að flytja almannavarnir undir einn viðbragðsaðila. Það er auðvitað gagnrýnt. Spurningin er um hvort þessi samhæfing haldist áfram. Það er líka spurning um hvernig samráði um þessar breytingar var hagað. Það kom skýrt fram á fundi allshn. að samráðið var lítið sem ekkert. Einu aðilarnir sem virtust mjög ánægðir með þetta voru björgunarmennirnir, Slysavarnafélagið Landsbjörg, enda er enginn að andmæla því að það verði ein björgunarmiðstöð. Almannavarnaráð er hins vegar samhæfingaraðilinn og afar mikilvægt að það ráð sé ekki lagt niður sem slíkt, enda kemur það fram hjá öllum umsagnaraðilum sem um þetta frv. fjalla. Einnig eru menn á því að óeðlilegt sé að setja það undir einn aðila.

Ég vil benda fólki á að það er hægt að skoða pappíra frá þeirri umræðu. Þar kemur afar skýrt fram að frumvarpið er fyrst og fremst unnið í dómsmrn. án samráðs við þá aðila sem eðlilegt hefði verið að hafa samráð við. Undir eðlilegum kringumstæðum hefði þetta frv. átt að koma fram snemma síðasta haust en ekki koma fyrir þingið tveimur dögum fyrir jólahlé og vera tekið til umræðu með afbrigðum.