Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 11:48:48 (3533)

2003-02-06 11:48:48# 128. lþ. 74.4 fundur 538. mál: #A Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins# (heildarlög) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[11:48]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég er sömuleiðis þeirrar skoðunar að ánægjuefni er að fá hér inn frv. til laga um sérlög eða heildarlög um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Þótt það hafi kannski ekki staðið þeirri stofnun sérstaklega fyrir þrifum að hún hafi ekki haft nógu skýra lagastoð eða lagaumgjörð held ég að þetta sé starfsemi þess eðlis og svo mikilvæg að eðlilegt sé að um stofnunina gildi sérlög, í raun og veru burt séð frá lagaumhverfi málefna fatlaðra að öðru leyti eða þess hvernig því er fyrir komið í verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga eða aðra slíka hluti.

Hitt er annað mál, herra forseti, að óhjákvæmilegt er að víkja að því að ekki hefur alltaf verið búið nógu vel að þessari starfsemi. Skemmst er að minnast þess að Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins glímdi við mikinn fjárhagsvanda á tímum mjög vaxandi álags eða eftirspurnar eftir þjónustu hennar. Og enn er við að glíma, það ég best veit, ákveðinn vanda sem birtist í biðlistum eftir þjónustu þessarar stofnunar sem er afar bagalegt. Ég held að það sé í raun leitun að hlutum sem er jafnslæmt að spara við sig peninga til og ætti að vera eitt það fyrsta sem menn tryggðu að byggju við viðunandi fjárveitingar og starfsaðstæður. Það er forsendustarf af þessu tagi, eins og það auðvitað er, að greina vandamál barna sem eiga við þroskaraskanir að stríða strax og grunur vaknar um slíkt. Það er auðvitað alveg ljóst að slík greining er forsenda þess sem á eftir kemur, forsenda þess að hægt sé að koma til aðstoðar, og það til lítils að hafa þau úrræði á reiðum höndum ef það er flöskuháls í sjálfri greiningunni. Þess vegna held ég að gjarnan megi fara yfir það í tengslum við afgreiðslu þessa frv. hvort enn hafi verið nóg að gert í því að bæta aðstæður Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra í þessu sambandi hvað líði þá öðrum frv. eða heildarendurskoðun málefna lagaumgjörðarinnar um málefni fatlaðra í ljósi þeirrar niðurstöðu sem nú er orðin, a.m.k. um sinn, að málaflokkurinn verði ekki fluttur til sveitarfélaganna og hverju sæti að hæstv. ráðherra komi þá ekki hingað inn með þau frv. önnur sem tengd voru þessu máli á sínum tíma. Þá er ég sérstaklega að vísa til frv. um réttindi eða réttargæslu málefna fatlaðra. Ég sé ekki að það gildi ekki í raun og veru alveg sömu rök um það eins og gera um þetta mál að það ætti ekkert að vera að vanbúnaði að koma þeim lagaumbótum fram í ljósi þeirrar niðurstöðu sem nú er orðin og ekki stendur til að breyta, a.m.k. um sinn, að málaflokkurinn verði áfram á ábyrgð ríkisins, jafnvel þó að í einhverjum tilvikum sjái sveitarfélög um starfsemina á grundvelli þjónustusamninga við ríkið eða á grundvelli reynslusveitarfélagafyrirkomulags, eða hvað það nú er.

Ég vil líka aðeins víkja að spurningum sem snúa að öðrum hlutverkum Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar heldur en greiningunni sjálfri. Ég held að það sé ákaflega mikilvægt að sömuleiðis séu skapaðar aðstæður til að sinna þeim þáttum vel. Hér þarf að hugsa um t.d. eftirfylgni og ég er að hugsa um fræðslustarfið. Þar held ég að menn verði að gæta líka hófs í því að fara ekki að setja Greiningar- og ráðgjafarstöðina í þær aðstæður að hún verði að standa alfarið undir kostnaði af slíkum þáttum, eins og fræðslustarfseminni, með gjaldtöku. Það getur virkað að mínu mati of hamlandi á þann mikilvæga þátt, stofnunin þarf klárlega að hafa þar ákveðna fjármuni handa á milli til að geta sinnt því starfi. Það er nú eins og við oft vitum kannski þeir sem mesta hafa þörfina fyrir slíka hluti sem minnsta hafa möguleikana til að nýta sér þá eða greiða fyrir slíka þjónustu sjálfir.

Loks langar mig að nefna einn þátt þessa máls og það er spurningin um aðgengi allra landsmanna að þessari mikilvægu þjónustu. Nú tek ég það skýrt fram að ég er ekki að mæla með því að starfsemi þessarar stofnunar verði skipt upp og henni dreift meira um landið eða hún flutt til. Ég held að mjög margt mæli með því að þetta sé á einum stað í einni öflugri stofnun þar sem safnað sé saman þekkingu og reynslu og búið til eins sterkt umhverfi, faglegt og starfslegt umhverfi og mögulegt er í þessum efnum. En það skiptir þá á hinn bóginn ákaflega miklu máli að þannig sé að málum staðið að mönnum sé ekki mismunað á neinn hátt hvað varðar aðgengi að þessari þjónustu þar sem hún er staðsett á höfuðborgarsvæðinu. Þá vakna spurningar eins og um kostnað landsbyggðarfólks, aðstandenda barna, við að leita sér þessarar þjónustu, hvort þar sé nægjanlega vel tryggt að um sæmilegan jafnræðisgrundvöll sé að ræða. Ég óttast að svo sé ekki og vil spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi ekki verið athugað í tengslum við undirbúning þessa máls hvort einhvers konar stuðningskerfi þyrfti að koma til sögunnar umfram það sem í gildi er. Ég játa að vísu að ég þekki það ekki í smáatriðum en ég hef þó í gegnum tíðina rekist á dæmi um að aðstandendur barna hafa orðið að leggja mikið á sig til þess að njóta sambærilegrar þjónustu fyrir börn sín hvað varðar greiningu og stuðning eins og þeir sem búa í nágrenni stöðvarinnar. Þá hlyti að koma til álita að skipulega yrði komið til móts við aðstandendur í slíkri aðstöðu og auðvitað í reynd þar með börnin sjálf, að tryggja að þau standi jafnt að vígi í þessum efnum.

Þetta er einn þáttur málsins, herra forseti, sem ég vildi gjarnan fara ofan í saumana á. Sé þetta í sæmilegu lagi er það vel en ég hef ástæðu til að efast um að það sé kannski nógu vel hugað að þessum þætti málsins og þá þarf að bæta úr því.