Aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 12:46:25 (3542)

2003-02-06 12:46:25# 128. lþ. 74.5 fundur 550. mál: #A aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum# (vinnutímatilskipun, EES-reglur) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[12:46]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það er rétt að halda því til haga að þetta frv. er nýtt mál, þ.e. hér er um að ræða endurskoðun á lögum frá 1980 um Vinnueftirlit ríkisins. Þau eru að sumu leyti orðin úrelt, að meginstofni standa þau þó eftir en að ýmsu leyti var þeim áfátt. Árið 1980 þekktu menn held ég ekki orðið ,,einelti``, ég held að það hafi a.m.k. ekki verið orðið fast í máli 1980. Hér er tekið á því.

Þar að auki er stuðlað að innleiðingu tveggja tilskipana og vinnan við tilskipanirnar, sem er væntanlega meginálitaefni frv. --- hitt eru meira sjálfsagðir hlutir sem allir hljóta að geta verið nokkuð sammála um --- sú vinna sem lögð hefur verið í þessar tilskipanir á undanförnum þingum í hv. félmn. ætti að nýtast nefndinni núna enda er að miklu leyti um sömu atriðin að tefla eða sömu útfærslurnar. Það er ákveðinn sveigjanleiki innbyggður hvað varðar vinnutímann. Það tel ég ákaflega mikilvægt og deili alveg þeim sjónarmiðum með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni sem hann lét koma fram áðan hvað varðar vinnutímann. Ég held hins vegar að við komumst ekki hjá því að innleiða þessar tilskipanir en ég vil ekki ganga lengra en tilskipanirnar segja nema samkomulag sé um það.

Hv. þm. kvartaði yfir því sem hann kallaði ,,ráðherravæðingu``. Ég tel kolrangt að stofnanir setji reglugerðir á ábyrgð ráðherra án þess að hann hafi hugmynd um. Það er eðlilegt að ráðherra og ráðuneyti njóti sérfræðiaðstoðar stofnunar en úr því að ráðherrann á að bera ábyrgð á reglugerðunum er eðlilegt að hann setji þær og viti hvað í þeim stendur.

Varðandi læknana, þ.e. lækna í starfsnámi, er talað um átta ára aðlögunartíma að vinnutímatilskipuninni. Mér er kunnugt um að hæstv. núv. heilbrrh. hefur ekki áhuga á því að nota þennan aðlögunartíma. Hins vegar getur þetta skapað einhver vandræði á spítölunum og það mál er í athugun. En persónulega veit ég að hæstv. heilbrrh. vill ekki nota þetta ákvæði nema þá nauðugur.

Varðandi þetta mál og mál af þessu tagi sem snerta vinnumarkaðinn hef ég alltaf lagt megináherslu á að reyna að ná samkomulagi. Það hefur verið lögð óhemjumikil vinna í það í ráðuneytinu varðandi t.d. Evróputilskipanir að reyna að leiða saman sjónarmið verkalýðshreyfingar og vinnuveitenda. Ég tel að báðir geti sæmilega við unað í þessu efni. Það er enginn vafi á því að verkalýðshreyfingin væri til með að ganga lengra en hér er lagt til og heldur ekki vafi á því að Samtök atvinnulífsins telja óþarflega langt gengið í sumum tilfellum, en ég tel sem sagt að báðir aðilar ættu að geta unað sæmilega við þá niðurstöðu sem hér er sett fram.

Varðandi einkavæðinguna sem hv. þm. gerði að umtalsefni ræður heilsugæslan í landinu ekki við að taka við öllu þessu eftirliti. Ef þetta á annað borð á ekki að vera dauður bókstafur verður að hleypa fleirum að, þá er ekki hægt að leggja þá skyldu alfarið á heilsugæsluna þó að auðvitað verði meginhlutinn af eftirlitinu á vegum hennar.