Aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 12:51:28 (3543)

2003-02-06 12:51:28# 128. lþ. 74.5 fundur 550. mál: #A aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum# (vinnutímatilskipun, EES-reglur) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[12:51]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Varðandi heilsugæsluna eða einkavæðingu þess þáttar málsins sem hér hefur orðið tilefni orðaskipta vil ég taka það fram að fyrir mér er það ekki bara spurning um viðhorf til einkarekstrar annars vegar og ríkisrekstrar hins vegar. Þetta er líka spurning um skilvirkt skipulag og þetta er spurning um það að heilsuverndarþáttum í samfélaginu sé ekki dreift óskynsamlega. Ég tel beinlínis rangt að líta ekki á heilsuvernd fólks á vinnustað sömu augum og heilsuvernd manna almennt í samfélaginu. Ég er algerlega sannfærður um að besta fyrirkomulagið sé öflugar opinberar heilsugæslustöðvar, þær tryggja bestu og heildstæðustu þjónustuna, ódýrustu og skilvirkustu, og það væri auðvitað eins og hvert annað fáránleikaleikhús ef einhver maður færi með heilsufarsvandamál sín á vinnustað til einkaaðila en ef hann svo veiktist um helgar færi hann á sína heilsugæslustöð.

Auðvitað er eðlilegast að þessu sé fyrir komið með samræmdum hætti og þetta sé hluti af heilsuvernd og heilsugæslu í landinu. Ég fullyrði að þetta er ekkert vandamál nema þá kannski að einhverju leyti á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að hér hafa menn því miður ekki byggt upp skipulagða og heildstæða heilsugæslu eins og kunnugt er.

Ég fagna því að vilji hæstv. heilbrrh. standi til þess að nýta ekki aðlögunartímann hvað varðar unglækna eða lækna í starfsnámi, kandídata, og ég tel að það sé smámál að leysa þau mögulegu útgjöld sem af því kunna að leiða að taka þá strax inn á þessu venjulega vinnutímaákvæði. Það er búið að því hvað varðar lækna og sérfræðinga. Það hefur þurft að setja verulegar fjárveitingar til t.d. Landspítala -- háskólasjúkrahúss og Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri til að unnt væri að uppfylla t.d. hvíldartímaákvæði vakthafandi lækna, og það ætti þá ekki að þurfa að stranda á því að leysa þessi mál gagnvart kandídötunum sem eru miklu fámennari hópur.