Vátryggingastarfsemi

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 13:34:37 (3547)

2003-02-06 13:34:37# 128. lþ. 74.6 fundur 568. mál: #A vátryggingastarfsemi# (EES-reglur) frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[13:34]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi, sem er 568. mál þingsins á þskj. 919. Eins og fram kemur í athugasemdum við frv. er um að ræða breytingar og viðbót við ákvæði XI. kafla laganna sem byggir á tilskipun nr. 2001/17/EB og varða endurskipulagningu fjárhags vátryggingafélags og slit þess. Frv. felur einnig í sér breytingar til samræmis við ákvæði Vaduz-samningsins á milli EFTA-ríkjanna sem öðlaðist gildi 1. júní 2002.

Megintilgangur frv. er að tryggja gagnkvæma viðurkenningu á aðgerðum aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins og samvinnu við endurskipulagningu fjárhags vátryggingafélaga og slit þeirra. Með endurskipulagningu fjárhags vátryggingafélags er í frv. átt við ráðstöfun sem felur í sér íhlutun dómstóla, sem ætlað er að tryggja eða endurreisa fjárhagslega stöðu félagsins, með greiðslustöðvun eða nauðasamningi, en með slitum vátryggingafélags er átt við aðgerð þar sem eignum félags er komið í verð og verðmætum þess dreift á milli lánardrottna, þar með talið vátryggingataka og vátryggðra, eða eigenda, hvort sem er af frjálsum vilja eða þvingað, þ.e. við gjaldþrotaskipti.

Helstu nýmæli frv. eru að úrskurður íslensks dómstóls um heimild vátryggingafélags með aðalstöðvar hér á landi til greiðslustöðvunar, nauðasamningsumleitana eða um slit þess hefur áhrif á öllu Evrópska efnahagssvæðinu og í Sviss. Tekur slíkur úrskurður þannig einnig til útibúa félagsins í öðrum aðildarríkjum.

Í frv. er gert ráð fyrir þeirri meginreglu að ákvæði laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., gildi um greiðslustöðvun, nauðasamningsumleitanir og gjaldþrot vátryggingafélaga nema annað komi fram í lögum um vátryggingastarfsemi. Þar er að finna ýmsar sérreglur. Frv. tekur einnig til frjálsra slita vátryggingafélaga og gilda þá reglur um þvinguð slit eftir því sem við á.

Frumvarpinu er ætlað að koma í veg fyrir að lánardrottnum verði mismunað með því að ólík lög gildi um endurskipulagningu fjárhags eða slit vátryggingafélags og útibúa þess. Er meginreglan sú að íslensk lög gilda við endurskipulagningu fjárhags vátryggingafélags með aðalstöðvar hér á landi og slit þess. Á þessu eru þó undantekningar og er þar fyrst og fremst um að ræða lagaskilareglu varðandi tiltekna samninga, réttindi og eignir sem eru í öðru aðildarríki en heimaríki vátryggingafélags. Enn fremur felst í frv. vernd fyrir neytendur, þ.e. vátryggingartaka og vátryggða. Við gjaldþrotaskipti við tryggingafélag teljast eignir sem mæta eiga líftryggingaskuldinni ekki með eignum þrotabúsins né er líftryggingaskuldin talin með skuldum þess. Takist ekki að ljúka greiðslu líftryggingakröfu með eignum þeim sem mæta eiga líftryggingaskuldinni telst líftryggingakrafa á hendur þrotabúi forgangskrafa. Þykir rétt að tryggja sérstaklega rétt sem leiðir af líftryggingasamningi en um er að ræða langtímasamninga sem oft og tíðum snúast um verulegan hluta ævisparnaðar fólks.

Við gjaldþrotaskipti vátryggingafélags sem rekur aðra starfsemi en líftryggingastarfsemi eru vátryggingakröfur forgangskröfur. Þá er einnig sérstaklega tekið tillit til vátryggingataka og vátryggða í tengslum við tryggingar og kröfulýsingar.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.