Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 13:55:36 (3549)

2003-02-06 13:55:36# 128. lþ. 74.8 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[13:55]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Við getum öll verið sammála um lýsingarnar sem gefnar eru. Þær hafa margoft verið ræddar á hinu háa Alþingi. En ég vil spyrja hv. þm. hvort hann sé aðallega að tala um niðurgreiðslur til að jafna muninn.

Ég hef margoft bent á að það eru mörg önnur dæmi, og menn vita það, sem íþyngja í þessum málaflokki. Nefna má að eftir að Skipaútgerð ríkisins var lögð niður ruku upp taxtar fyrir alla flutninga. Það er náttúrlega grunnatriði sem þarf að vera í lagi. Ég hef spurt hv. þingmann að því áður hvort hann telji einhvers konar endurreisn Skipaútgerðar ríkisins koma til greina sem aðhalds í sjó- og landflutningum. Það ber öllum saman um að þjónustan hafi stórversnað eftir að sú þjónusta var felld niður. Hún kostaði um það bil 300 millj. á sínum tíma.

Hv. þm. talar um póstinn. Hér hefur verið mikil umræða um hann og ég vil spyrja hv. þm. Kristján Möller hvort hann hafi ekki hugsað sig um þegar breytingar voru gerðar hvað varðar póstinn. Afleiðingarnar eru að koma í ljós og ef ég man rétt studdi hv. þm. þær breytingar sem orðið hafa. Það er gríðarleg íþynging fyrir alla hvað varðar póst- og vörusendingar, sérstaklega út á land. Líknarfélög ýmiss konar hafa við gerð fjárlaga komið og beðið um 1--1,5 millj. hvert vegna aukins kostnaðar við póstflutninga. Þetta er afleiðing af breyttri stefnu við rekstur póstsins. Þá umræðu tókum við í fyrra og ég varaði mjög við að fara þá leið sem farin var.