Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 13:59:45 (3551)

2003-02-06 13:59:45# 128. lþ. 74.8 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[13:59]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Kristján Möller áttar sig samt á því að þær breytingar sem gerðar voru, t.d. á póstinum, hafa orðið til þess beint eða óbeint að hækka verðið á þjónustunni. Fólk kvartar náttúrlega sáran undan því. Síðast í umræðunni spurði ég hv. þingmann út í Skipaútgerð ríkisins sem við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum verið með tillögu um að endurreisa, annaðhvort það fyrirtæki eða strandflutninga. Þá sagði hv. þm. að hann væri sammála því að hægt væri að fara þá leið, ekki að stofna endilega ríkisskipafélag heldur að fela einhverjum aðila strandflutninga. Það er líka fær leið. Ég spyr hv. þm. hvort hann hafi skipt um skoðun hvað það varðar vegna þess að einokun einkafyrirtækja í flutningum hefur sannarlega orðið til að hækka verð á þessari þjónustu gríðarlega. Við vitum það öll á hinu háa Alþingi að stóru flutningafyrirtækin ruddu út af markaði öllum smáum flutningsaðilum, eftir strandlengjunni þverri og endilangri. Það hefur leitt til gríðarlegra breytinga og kostnaðarauka. Það þarf greinilega samkeppni við einkareksturinn í einhverju formi. Annars gengur þetta ekki og þetta er stór hluti vandans sem við stöndum frammi fyrir.

Síðan er hitt sem ég vil spyrja hv. þingmann um, verslunarreksturinn sjálfan sem greinilega er mjög íþyngjandi. Þótt menn hafi lágvöruverslun Bónuss í viðkomandi byggðarlagi sem verslar við viðkomandi kjötvinnslufyrirtæki á staðnum er ódýrara fyrir kaupmanninn á horninu að fara út í Bónus og kaupa sér vörur til endursölu en að fara í verksmiðju og kaupa frá verksmiðjuvegg í sama bæ og fyrirtækið starfar í. Við erum hér með samkeppnsumhverfi sem sannarlega þarf endurskoðunar við. Það er stórt mál. Ég er tilbúinn í þá vinnu ásamt hv. þm. Kristjáni L. Möller.