Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 14:04:17 (3553)

2003-02-06 14:04:17# 128. lþ. 74.8 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[14:04]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að á engan þingmann sé hallað þótt ég segi að hv. þm. Samfylkingarinnar, Kristján Möller, hafi verið ötulasti talsmaður þess í þessum sölum að leitað verði að ráðum til þess að lækka vöruverð á landsbyggðinni.

Hv. þm. gerði að umtalsefni þá skýrslu sem menn hafa lengi beðið eftir, raunar í 15 mánuði, og átti að því er við þingmenn töldum að leggja fram einhvers konar ráð til þess að draga úr flutningskostnaði og lækka vöruverð á landsbyggðinni. Vegna þess að hv. þm. Kristján Möller er manna fremstur sérfræðingur í þessum efnum og það er ljóst af máli hans að hann hefur lesið þessa skýrslu langar mig til þess að spyrja hann hvort hann telji að þær hugmyndir sem koma fram í skýrslunni svari að einhverju leyti þörfum landsbyggðarinnar til þess að lækka vöruverð. Telur hv. þm. Kristján Möller að þarna séu komin einhvers konar ráð til þess að draga úr flutningskostnaði eða lækka vöruverð á landsbyggðinni eða telur hann að þessi skýrsla hafi einfaldlega verið tímaeyðsla og til þess fallin að fela þetta erfiða mál fram yfir kosningarnar? Er hér um einhvers konar blekkingar- eða feluleik að ræða af hálfu stjórnarinnar að mati hv. þingmanns?