Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 14:16:28 (3556)

2003-02-06 14:16:28# 128. lþ. 74.8 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[14:16]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Nú liggur ljóst fyrir og hefur reyndar gert lengi, þrátt fyrir að menn í stjórnarflokkunum mótmæli því að það megi mismuna landsbyggðarmönnum með sköttum, að landsbyggðarmenn borga hærri skatta. Þeir borga hærri þungaskatt og hærri virðisaukaskatt en höfuðborgarbúar borga almennt. Þetta á þó einkum við um þá sem fjærst búa höfuðborgarsvæðinu. Það hefur verið dregið fram í þessari umræðu, kom m.a. mjög vel fram í fyrri hluta þessarar umræðu sem mig minnir að hafi verið í fyrra.

Ég spyr hv. formann Samfylkingarinnar hvort hann sé ekki sammála mér um að það megi taka á þeim vanda sem við erum hér að ræða og hv. þingmenn Samfylkingarinnar hafa dregið mjög skilmerkilega fram með flutningi þessarar tillögu, og ber að þakka þeim það, að það megi laga stöðu landsbyggðarfólks, m.a. með því að mismuna í sköttum ef ekki er önnur leið fær. Þetta hefur, eins og réttilega hefur verið bent á, verið gert annars staðar, m.a. í Noregi. Þar sem það liggur fyrir að þegnunum er þegar mismunað í gegnum skatta, með þungaskatti og virðisaukaskatti, eru þá þingmenn Samfylkingarinnar sammála mér um að það megi þá alveg eins snúa dæminu við til að leiðrétta stöðuna?