Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 14:31:34 (3565)

2003-02-06 14:31:34# 128. lþ. 74.8 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[14:31]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Svarið er afdráttarlaust nei. Leiðin er ekki sú að beita almennum niðurgreiðslum eins og hv. þm. er að spyrja mig um. Samfylkingin hefur hins vegar lagt fram tillögur sem miða beinlínis að því að ívilna fyrirtækjum á landsbyggðinni í gegnum skattkerfið. Við höfum t.d. lagt fram tillögur í þessum sölum. Við höfum jafnframt reifað tillögur sem ekki hafa verið lagðar fram þar sem gert er ráð fyrir að fyrirtæki í tilteknum atvinnugreinum þurfi ekki að greiða sama tryggingagjald og önnur fyrirtæki meðan þau eru að koma undir sig fótunum. Ég vísa til tillagna okkar, m.a. um fyrirtæki sem tengjast þekkingariðnaði.

Herra forseti. Samfylkingin er algerlega samkvæm sjálfri sér í þessum efnum. Hún hefur ítrekað, m.a. hv. þm. Kristján Möller og ýmsir þingmenn úr öðrum flokkum sem stóðu að stofnun Samfylkingarinnar eins og fyrrv. þm. Gunnlaugur Stefánsson, barist hatrammlega fyrir niðurgreiðslum á húshitunarkostnaði sem er auðvitað ekkert annað en niðurgreiðsla á orku á landsbyggðinni. Þetta höfum við gert ítrekað og reyndar hefur það haft þverpólitískan stuðning í þinginu.

Hv. þm. spurði fyrr í umræðunni hvort þingmenn Samfylkingarinnar teldu að það ætti t.d. að ýta undir stofnun sérstakrar skipaútgerðar ríkisins. Svarið var alveg klárt nei. Það sem við viljum helst væri að skapa einhvers konar þverpólitíska samstöðu um leiðir sem allir gætu orðið sammála um og miðuðu að því að lækka vöruverð á landsbyggðinni. Við höfum bent á þungaskattinn sem leið til þess. Við höfum bent á að í ýmsum öðrum löndum fara menn þá leið. Hvers vegna ekki að skoða það hér? Hvers vegna ekki að fara einhverjar slíkar leiðir? Við teljum fært að feta þær. Gerum það þá. Skoðum það mál.