Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 14:34:35 (3567)

2003-02-06 14:34:35# 128. lþ. 74.8 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[14:34]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Almennt erum við þeirrar skoðunar að byggja eigi á almennri frjálsri samkeppni. Ég vísa til þess, herra forseti, að þegar hér var hörð samkeppni í flugi innan lands þá lækkuðu flugmiðar verulega. Fargjöld lækkuðu verulega. Það sama sjáum við gerast núna í millilandaflugi. Þar er komin fram hörð samkeppni vegna nýrra flugfélaga. Það leiðir til þess að það er allt annað að ferðast til útlanda nú en áður. Verðið er allt annað og lægra.

Hv. þm. spurði mig síðan hvort ég væri hlynntur því að tekið væri upp kerfi þar sem veitt væru sérleyfi með ákveðinni þjónustuskyldu. Ég tel ekki að það sé góð aðferð. Ég held að sagan hafi sýnt að það sé ekki heppilegt fyrir neytendur. Í vissum undantekningartilvikum kann að vera nauðsynlegt að fara þá leið sem menn hafa gert, þ.e. að veita styrki til að halda uppi samgöngum við ýmsa staði. Ég tel að það séu neyðartilvik, undantekningartilvik, en það á alls ekki að loka á þá möguleika.