Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 14:44:20 (3569)

2003-02-06 14:44:20# 128. lþ. 74.8 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[14:44]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fyrst segja að það vakti athygli mína að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, 6. þm. Suðurl., sagði að ég hefði uppnefnt hv. 7. þm. Reykv., Össur Skarphéðinsson, þegar ég talaði um hann í andsvari áðan. Hann á sennilega við það þegar ég kallaði hann formann Samfylkingarinnar. Ég man ekki eftir því að ég hafi farið öðrum orðum um hann en kallað hann hv. þm. Össur Skarphéðinsson og formann Samfylkingarinnar. Ég minnist þess á hinn bóginn ekki að ég hafi rifjað upp að hann hafi verið ritstjóri Þjóðviljans. (Gripið fram í.)

Nú er það svo um ræðu þessa hv. þm. að hann átti í svolitlum erfiðleikum af því að hann gat ekki útskýrt hvort Samfylkingin stendur við það sem hún er að reyna að segja eða ekki öðruvísi en með því að gefa fullkomlega í skyn að Samfylkingin meini það ekki.

Það liggur fyrir að formaður Samfylkingarinnar hefur lýst því yfir að Samfylkingin vilji að þungaskattur verði mismunandi á mismunandi landsvæðum. Samfylkingin var lengi að semja tillögu þar sem þetta kemur fram. Formaðurinn talaði við þær umræður og mig langar að spyrja hv. þm.: Eftir að tillögur Samfylkingarinnar líta loksins dagsins ljós, býst hann þá við því að þungaskatturinn í Vestmannaeyjum verði hærri eða lægri en þungaskatturinn á Ísafirði eða þungaskatturinn á Austurlandi, þungaskatturinn á Norðurlandi eða þungaskatturinn á Höfn í Hornafirði? Af hverju vilja þingmenn Samfylkingarinnar ekki tala efnislega um sínar eigin tillögur? Hvernig geta þingmenn Samfylkingarinnar búist við að tekið sé mark á þeim ef þeir setja fram svo róttæka tillögu sem hér er um að ræða án þess að þora með einum eða öðrum hætti að skýra hana, öðruvísi en með því að að agnúst út í aðra þingmenn? Ég held að hv. þm. ætti einu sinni að vera jákvæður í ræðustólnum og skýra hvað fyrir honum vakir. (Gripið fram í.)