Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 14:57:12 (3577)

2003-02-06 14:57:12# 128. lþ. 74.8 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[14:57]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. 6. þm. Suðurl. sagði að hv. 1. þm. Norðurl. e. hefði verið með ósanngjarnar kröfur á hendur Samfylkingunni um að hún útfærði stefnu sína.

Ja, ég veit að þetta er afar ósanngjörn krafa, að Samfylkingin útfæri stefnu sína. Ég skal ekki vera með svo ósanngjarna kröfu um að þeir hafi stefnumál sín alveg á hreinu. Mér dettur ekki í hug að gera svo miklar kröfur á hendur Samfylkingunni að hún hafi stefnumál sín alveg á hreinu.

En eitt vil ég þó fara fram á og gera það af mikilli hógværð og það er að spyrja um meginlínur. Er það stefna Samfylkingarinnar --- og nú á ég ekki bara við það sem einstaka menn segja hér í þessari umræðu --- mun það koma fram til að mynda í kosningastefnumálum þeirra að mismunandi virðisaukaskattskerfi eigi að vera eftir búsetu? Mun það koma fram að það sé stefna Samfylkingarinnar að virðisaukaskatturinn eigi að vera öðruvísi á vöruverð á landsbyggðinni, hversu stórum hluta landsbyggðarinnar og hvað eiga menn við með hugtakinu landsbyggð? Það getur nú varla talist ósanngjörn krafa að menn hafi a.m.k. lagt þetta niður fyrir sér, vegna þess að hér hafa menn verið að tala í þessa áttina og sama varðandi þungaskattinn.

Ég veit að þetta er hugmynd sem oft er rædd á almennum fundum. En maður hlýtur a.m.k. að gera ráð fyrir því fyrst ýjað hefur verið að þessu í þingsölum að menn hafi lagt það dálítið niður fyrir sér með hvaða hætti þetta skuli gerast í stórum dráttum. Verður það þannig, eins og ég hef skilið að menn eru að tala sig inn á, að það skuli þá vera mismunandi þungaskattskerfi? Mun það koma fram í stefnumálum flokksins?