Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 15:03:24 (3580)

2003-02-06 15:03:24# 128. lþ. 74.8 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[15:03]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér talaði hv. 1. þm. Vestf. Við ræðum þá stöðu sem er uppi, við ræðum þá staðreynd að lífskjör á landsbyggðinni hafa versnað borið saman við höfuðborgarsvæðið, og hann sagði að sér liði alveg sérstaklega vel í þessari umræðu. Það er með hreinum ólíkindum að menn skuli setja þetta fram í umræðunni í ljósi þess að sú tillaga sem við erum að ræða hér hefur fyrst og fremst það að markmiði að sýna fram á þessa staðreynd. Við erum að leita eftir þverpólitískri samstöðu til að takast á við þetta verkefni. Við höfum dregið það fram að ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. hefur ekki gert nokkurn skapaðan hlut annan en að skaða lífskjör á landsbyggðinni. Þá kemur hv. 1. þm. Vestf., Einar K. Guðfinnsson, og lýsir því yfir að honum líði alveg sérstaklega vel í þessari umræðu. (EKG: Eru þetta svör við spurningunum?) Þetta er mjög sérstakt.

Ég veit ekki hversu vel hv. þm. þekkir til þeirra hugmynda sem við höfum lagt fram. Við höfum m.a. lagt það fram að því er varðar tekjuskattinn að skoða möguleika þar á mismunandi útfærslu. Það er reyndar alveg rétt. En þar sem ég er hins vegar í andsvari sagði ég að ég hefði efasemdir um virðisaukaskattinn sem við nefndum áðan.

Virðulegi forseti. Það er með ólíkindum hversu illa hv. þingmönnum líður í þessari umræðu þar sem þessi staðreynd er dregin fram. Þegar menn koma fram með hugmyndir um það hvernig takast eigi á við þetta verkefni geta þeir ekkert annað lagt til umræðunnar en útúrsnúning, og þeir reyna að draga upp þá mynd að við meinum ekkert með því sem við segjum. Og þar fer hv. þm. Halldór Blöndal fremstur í flokki. (Gripið fram í: Og Einar K. rétt ...?)