Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 15:18:13 (3584)

2003-02-06 15:18:13# 128. lþ. 74.8 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[15:18]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Nú held ég að sá ímyndaði gestur sem ég dró hér upp hefði algerlega tapað sér. Hér talaði væntanlega stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar, hv. 1. þm. Norðurl. e. sem gegnir trúnaðarstörfum á hinu háa Alþingi fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans.

Hann ræddi um það að hann hefði lausnina: Jú, við styttum leiðina milli höfuðborgarinnar og Akureyrar. Við vorum að ræða í gær útspil ríkisstjórnarinnar í samgöngumálum í þessum efnum. Ég vek athygli hv. þm. og annarra hv. þm. á því að þessa var ekki getið einu orði í þeirri samgönguáætlun sem gildir næstu 12 árin. Ég spyr: Er hv. þm. utan gátta þegar kemur að stjórnarstefnu í þessu sambandi? Er hann að berjast á móti straumnum? Er hann kominn í lið með okkur stjórnarandstæðingum þegar leitað er nýrra leiða í þessum efnum? Hvernig víkur því við að hann nýtur ekki stuðnings með þessar gæfulegu og glæsilegu hugmyndir sínar? Af hverju er hann einn á ferð á hálendinu?