Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 15:34:27 (3594)

2003-02-06 15:34:27# 128. lþ. 74.8 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., EMS
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[15:34]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Það hefur um margt verið athyglisvert að fylgjast með þeirri umræðu sem hér hefur átt sér stað, og síðustu sviptingar hafa orðið til þess að ýmsir mér þingreyndari menn hafa bent mér á að hv. þm. Halldór Blöndal hafi minnt mjög á þá tíð þegar hann var hér í stjórnarandstöðu, sem er orðið nokkuð langt um liðið. Og það er augljóst mál að hv. þm. tekur mjög alvarlega ýmsar vísbendingar í samfélaginu um að það gæti styst í að hv. þingmenn Sjálfstfl. verði í stjórnarandstöðu og hv. þingmanni þyki rétt að taka hér nokkrar æfingar þannig að hann verði undir þann tíma búinn. Það er ekki sérkennilegt vegna þess að auðvitað þarf svolitla aðlögun að því að breyta úr þeim gír að vera í stjórnarliði og vera síðan í stjórnarandstöðu.

En ég held að nauðsynlegt sé, herra forseti, að rifja það upp fyrir nokkrum hv. þm. Sjálfstfl. sem tekið hafa þátt í umræðunni að kosningarnar eru ekki fyrr en 10. maí. Menn þurfa ekki að fara strax í stjórnarandstöðugírinn eins og þeir hafa verið að gera hér í dag.

Nálgun manna í þessu máli er mjög sérkennileg. Ég hélt að það væri sameiginlegt áhugamál okkar allra, þingmanna landsbyggðarinnar, að reyna að vinna í því að jafna aðstöðu íbúa landsins. Þess vegna skil ég ekki allt þetta upphlaup sem hér hefur orðið, nema sú skýring sé að hv. þingmenn telji að þeir séu í raun og veru að ræða við ríkisstjórnarflokk þar sem Samfylkingin er og þeir séu sjálfir komnir í stjórnarandstöðu. Það er eina skýringin á þessu mikla upphlaupi sem hér hefur átt sér stað.

Herra forseti. Við ræðum hér afar meinlausa en um leið býsna mikilvæga þáltill. Þetta er tillaga um að reynt verði að fara leið sem geti orðið sem mest sátt um. Það er auðvitað alveg augljóst mál að við náum ekki árangri í þessu mikilvæga máli öðruvísi en að við náum víðtækri sátt um þá leið sem við viljum fara. Og hér er verið að nefna þann þátt að skoðuð verði sérstaklega og metin áhrif þungaskatts á vöruverð og á rekstrarskilyrði og samkeppnishæfni atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni.

Ég taldi það bara sjálfsagt að ekki skipti máli hvar við landsbyggðarþingmenn værum í flokki, að við ættum að geta sameinast um þetta, að setja niður nefnd til að fara yfir málið til að við gætum náð sem mestri samstöðu.

Síðan er sagt í lokin:

,,Nefndin kanni sérstaklega hvernig breyta megi skattkerfinu til að ná þessu marki.``

Þessi setning er ekki þarna inni fyrir einhverja tilviljun. Hún er auðvitað til þess að hægt sé að skoða allt þetta kerfi og reyna að fá sem mesta samstöðu um leið til að ná markmiðinu. Og markmiðið er aðalmálið, að við viljum reyna að jafna aðstöðu í landinu.

Það liggur algjörlega ljóst fyrir að íbúar landsbyggðarinnar borga hærri skatt, borga hærri virðisaukaskatt í matvöruverði --- það blasir við þar sem matvöruverðið er hærra og ýmis önnur þjónustugjöld eru hærri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna er spurningin um hvaða leið sé vænlegust til að jafna þetta. Menn geta haft mismunandi skoðanir á því en menn ættu a.m.k. að vera sammála um markmiðið, að reyna að jafna þetta og reyna að fara leið skattkerfisins. Ef hv. þm. hafa aðrar færar leiðir er eðlilegt að þeir komi þeim á framfæri og útskýri hvaða aðrar leiðir séu vænlegri.

Ég skil mætavel að hv. þm. Sjálfstfl. séu nokkuð vanstilltir yfir umræðunni, sérstaklega í ljósi þess að nýlega kom út skýrsla frá samgrn., frá nefnd sem fór sérstaklega yfir flutningskostnað. Og, herra forseti, því miður, þrátt fyrir töluvert langa fæðingu þeirrar skýrslu eru ekki skýrar og klárar tillögur um hvaða leiðir eru bestar. Að vísu er bent á að ýmsir leiðir séu verri en aðrar en skoða þurfi síðan nánar aðrar tillögur. Ég hélt að þessi nefnd hefði haft tíma til að skoða þær nánar. En því miður virðist það ekki hafa verið gert.

Ekki er síður athyglisverð í ljósi þeirrar umræðu sem hér hefur átt sér stað sú stöðulýsing sem nefndin gerir á þessum vanda. Í stuttu máli má segja að þessi niðurstaða staðfesti nákvæmlega það sem kemur m.a. fram í greinargerð og fylgigögnum tillögu okkar. Þar er það bara staðfest. Þeir hefðu í raun og veru getað byrjað á því að velta fyrir sér tillögunum vegna þess að þær upplýsingar lágu fyrir.

Það er engar nýjar upplýsingar að sjá í þessari skýrslu sem ekki voru klárar fyrir.

Dæmi úr skýrslunni, með leyfi forseta:

,,Samþjöppun aðila í landflutningum og þátttaka skipafélaga gerir það að verkum að tveir flutningsaðilar eru með nær alla landflutninga á Íslandi --- fákeppni er því ráðandi á þessum flutningum. Samfara þessu hafa gjaldskrár flutningsaðila hækkað verulega umfram þróun neysluvöruvísitölu.``

Það þurfti ekki á annað ár til að komast að þessu.

Fleiri tilvitnanir, með leyfi forseta:

,,Flutningskostnaður ræður oft miklu um afkomu fyrirtækjanna og getur haft úrslitaáhrif á staðarval þeirra. Flutningar og fjarlægðir eru því eðlilega íþyngjandi þáttur í rekstri á landsbyggðinni.``

Það þurfti ekki 15 mánuði til að komast að þessu.

Áfram, með leyfi forseta:

,,Almennt voru viðmælendur sammála um að greiddur flutningskostnaður færi enn vaxandi og hann hefði hækkað umfram almenna verðlagsþróun að undanförnu.``

Það þurfti heldur ekki 15 mánuði til að komast að þessu.

Síðan kemur kafli í skýrslunni um það hvað eigi að gera. Þar er m.a. bent á að víða um heim hafi menn farið ýmsar leiðir til jöfnunar með misjöfnum árangri. Jafnvel hafa komið athugasemdir frá Eftirlitsstofnun EFTA við t.d. norska kerfið, um að það samræmdist ekki reglum um Evrópska efnahagssvæðið. En þarna hafa menn þó verið að gera tilraunir til þess að ná markmiðinu, menn telja eðlilegt að beita þessum aðferðum til að jafna aðstæðurnar.

Ég sé, herra forseti, að tíminn veður hér áfram og ég hef því ekki tíma til að fara nánar yfir skýrsluna en ég geri það hugsanlega í seinni ræðu minni.

En vegna þess að ýmsir hv. þm. Sjálfstfl. hafa nokkuð verið að velta fyrir sér hver stefna Samfylkingarinnar í þessum málum væri, og oft og tíðum farið þá nokkuð vítt um byggðamálin, vil ég bara til glöggvunar og þeim til skemmtunar, upplýsingar og fræðslu lesa nokkra örstutta valda kafla úr samþykkt okkar frá síðasta landsfundi þar sem að sjálfsögðu er fjallað sérstaklega um byggðamál.

Þar segir, með leyfi forseta:

,,Landsfundur Samfylkingarinnar, haldinn 16.--18. nóvember 2001, lýsir því yfir að afleiðingar byggðaþróunar síðustu ára er eitt brýnasta úrlausnarefni íslenskra stjórnmála. Of lengi hafa úrræði stjórnvalda einkennst af samþykktum án aðgerða og nú er svo komið að þessi þjóðarvandi kallar í senn á aðgerðir sem verða að koma strax til framkvæmda, auk vandaðrar langtímastefnumótunar.

Ný byggðaáætlun á að vera ítarleg framkvæmdaáætlun með skýr markmið og eftirfylgni. Vegna mikilla breytinga á atvinnuháttum er mikilvægt að stjórnvöld móti og fylgi skilvirkri stefnu um hvernig bregðast skuli við á ákveðnum svæðum. Því þarf að veita uppbyggingastyrki, líkt og í Noregi og í löndum Evrópusambandsins. Búsetu í landinu ber ætíð að styrkja með áherslu á jöfnuð og jafnrétti.``

En, herra forseti, ég verð að stikla á stóru vegna þeirra tímamarka sem hér eru í ræðuhöldum. Vegna þess að sérstaklega var spurt um þungaskattinn vil ég lesa hér eina mjög skýra setningu. Hún er svona, með leyfi forseta:

,,Dregið verði úr áhrifum staðsetningar á verðlag, til dæmis með breytingum á þungaskatti.``

Þarna er augljós viljayfirlýsing um að við viljum skoða sérstaklega þungaskattinn eins og við erum að gera með tillöguflutningnum hér. Það er algjört samhengi í því sem samþykkt var á landsfundi okkar og þeim tillöguflutningi sem hér er til umræðu.