Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 15:42:46 (3595)

2003-02-06 15:42:46# 128. lþ. 74.8 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[15:42]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson segir að umrædd skýrsla sé bara skilgreining á vandanum.

Málið er að við eigum öll mjög auðvelt með að skilgreina vandann. Þess vegna eru það svo mikil vonbrigði að þegar hv. þm. Samfylkingarinnar koma fram með þetta mál skuli það ekki vera útfært. Og meira að segja í stefnuskrá flokksins er talað um að taka eigi þennan þátt út úr, þ.e. þungaskattinn. Hvers vegna í ósköpunum er þá ekki sett fram tillaga eins og menn hafa kallað eftir hér? Útfærð tillaga gæti gefið tilefni til þess að menn styddu hana eða væru á móti henni.

En því er alls ekki að fagna. Hér er um almennt snakk að ræða og það er það sem veldur mestu vonbrigðunum. Í tillögunni, t.d. um svæðaskiptingu landsins, er ekkert sett fram. Þess vegna er svo erfitt að ræða þessi mál. Við getum öll talað okkur heit í byggðamálum og farið á póst eftir póst og talað um það hvernig við ætlum að breyta málum þar til þess að laga. En í hinum pólitísku áherslum kemur vandinn fram. Þar verða menn ósammála.

Ég vil því spyrja hv. þingmann hvers vegna ekki sé sett fram heildstæð áætlun í smáatriðum af flokksins hálfu þegar þetta er svona langt rekið og jafnvel komið fram hér í þingmáli sem er stutt af allmörgum þingmönnum Samfylkingarinnar.

Af því að það er ekki gert virkar þetta ótrúverðugt og verður, eins og allar skýrslur sem komið hafa fram, einungis skilgreining á vanda, almennar bollaleggingar og hugmyndir um hvernig væri hægt að gera þetta. Ég lít þannig á málið.