Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 15:44:56 (3596)

2003-02-06 15:44:56# 128. lþ. 74.8 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[15:44]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði í ræðu minni áðan að þessi leið hefði verið valin af þeirri einföldu ástæðu að við vildum reyna að ná sem allra mestri sátt um þá leið sem þyrfti að fara. Markmiðin eru skýr og við viljum skoða sérstaklega þungaskattinn, þessi tillaga gengur út á það, og að skattamálin verði skoðuð sérstaklega til að ná þeim markmiðum að jafna aðstöðu í landinu.

[15:45]

Ég hélt að hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson væri sammála okkur um þetta en nú virðist hann finna eitthvað að aðferðafræðinni. Hann vill fá í tillögum okkar nákvæmar útlistanir á hverju einasta smáatriði, að því er mér heyrðist.

Við höfum valið þessa leið, ekki bara í þessu máli heldur ýmsum öðrum, af þeirri einföldu ástæðu að við teljum að tillöguflutningur á Alþingi eigi ekki eingöngu að vera flokkspólitískur, áróðursplagg fyrir flokkinn, heldur teljum við mun nauðsynlegra að ná árangri, ná þeim markmiðum sem við setjum okkur. Við erum alveg klár á því að við náum þessu því miður ekki fram nema það verði mjög víðtæk pólitísk samstaða um málið. Þess vegna veljum við þá leið að setja niður nefnd sem á að fara yfir ákveðna hluti og skila af sér fyrir ákveðinn tíma til að freista þess að við getum náð samstöðu um svo mikilvægt mál sem þetta. Þetta mál er miklu mikilvægara en svo að við ætlum okkur að setja bara okkar merkimiða á og segja: Það vill enginn gera neitt í þessu nema við. Við treystum á samstöðuna þó að af umræðunni í dag megi draga aðrar ályktanir. En við höfðum trú á því fram að þessu að það væri víðtæk samstaða um það, a.m.k. meðal landsbyggðarþingmanna, að þetta væri eitt af þeim málum sem við þyrftum að ná saman um og við ættum ekki fyrir fram að gefa okkur nákvæma niðurstöðu í því, að það væri aðeins ein leið sem hægt væri að fara. Ég er alveg klár á því að þetta getur verið flókið að ýmsu leyti, eins og dæmi frá Noregi sem ég nefndi áðan í ræðu minn bendir til. Það hafa komið fram athugasemdir um að þeir séu einnig með aðra útfærslu.