Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 15:47:09 (3597)

2003-02-06 15:47:09# 128. lþ. 74.8 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[15:47]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil enn árétta að ég er óánægður með að ekki skuli koma fram heildstæðari tillögur. Eins og hv. þm. Einar Már Sigurðarson veit eru þessar hugmyndir um mismunandi þungaskatt og afslátt af honum ekkert nýjar af nálinni. Við höfum sjálfsagt báðir verið á fundum þar sem við höfum séð og skýrðar hafa verið út fyrir okkur a.m.k. 2--3 hugmyndir sem ég man eftir, algerlega útfærðar og heildstæðar. Það er t.d. hugmynd sem hefur verið útfærð af Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar sem menn geta annaðhvort sagt að þeir séu með eða á móti. Þess vegna væri ekkert óeðlilegt þegar menn flytja þingmál af þessu tagi að þeir settu inn í umræðuna að þeir aðhylltust t.d. þær hugmyndir sem Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar setti fram, hugmyndir sem ég hef kynnt mér mjög vel og finnst allrar athygli verðar.

Ég er ekki að tala um þetta á þeim grunni að ég sé á móti því að beita þessari aðferð, alls ekki. Ég er að lýsa óánægju minni með að inn í þennan þátt umræðunnar um vanda landsbyggðarinnar, þ.e. háan þungaskatt sem kemur fram í verðlagi, skuli samfylkingarmenn ekki treysta sér til að fara og tileinka sér og tala fyrir hugmyndum sem eru á borðinu. Það eru til útfærðar hugmyndir og ég er viss um að hv. þm. Einar Már Sigurðarson hefur verið á fundum, jafnvel með mér, þar sem þessar tillögur hafa verið reifaðar og útfærðar þannig að hægt væri að setja þær fram sem pólitískt markmið og tala fyrir þeim. Ekkert mál.

Þannig er þessi staða og það er einungis þetta sem ég er að tala um, ef menn vilja taka á þessum málum eftir þessum formúlum eiga þeir bara að ganga þvert.