Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 15:49:09 (3598)

2003-02-06 15:49:09# 128. lþ. 74.8 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[15:49]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. heldur sig í raun og veru enn við sama málflutninginn og þrástagast á sömu hlutunum. Ég hélt að bæði í ræðu minni og fyrra andsvari mínu hefði ég svarað hv. þingmanni.

Ég held að ég muni það eins og hann að við höfum verið saman á fundi þar sem þessar tillögur voru útfærðar. Það er margt til í því að það sé hægt að tala fyrir þeim, leggja þær fyrir og mæla fyrir þeim. Ekkert mál, sagði hv. þm. Ég undra mig á því að hann skuli ekki hafa sett þær í búning, lagt þær hér fyrir og mælt fyrir þeim ef það er ekkert mál.

En ég endurtek, herra forseti, enn einu sinni að við teljum að það þurfi að fara vandlega yfir þetta mál þó að við, eins og ég benti á áðan með lestri úr landsfundarsamþykkt okkar --- þar höfum við gert samþykkt um málið og teljum að þungaskatturinn sé eitt af því sem eigi að skoða í þessu sambandi --- við viljum reyna að ná um þetta pólitískri samstöðu af þeirri einföldu ástæðu, svo að ég endurtaki það enn einu sinni, að þetta mál er það mikilvægt í okkar huga að við ætlum ekki að eigna okkur það ein. Við teljum þurfa pólitíska samstöðu til þess að tryggja jafnrétti landsmanna hvað þetta varðar.

Þess vegna get ég endurtekið, eins og ég sagði áðan, að þrátt fyrir að við höfum bent á þungaskattinn ætlum við ekki að útloka aðrar leiðir fyrir fram ef hv. þm. hafa aðrar leiðir til þess að ná sama markmiði. Skárra væri það. Megináhersla okkar er á að ná þessu markmiði fram en ekki endilega fyrir fram að segja: Þetta er hin eina rétta leið. Aðrar leiðir er ekki hægt að fara. Ég vona að hv. þingmaður hafi áttað sig á þessu markmiði.