Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 15:51:15 (3599)

2003-02-06 15:51:15# 128. lþ. 74.8 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., EKG
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[15:51]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson sagði áðan, og vitnaði til samþykktar Samfylkingarinnar, að það væri mat þess flokks að eitt brýnasta úrlausnarefni okkar tíma í stjórnmálum væri byggðamálin. Þetta gerðist eftir að hv. þm. Samfylkingarinnar höfðu verið brýndir mjög á því hver stefna flokksins í byggðamálum væri. Þá kom niðurstaðan, þ.e. þessi: Afar óljós skrif um byggðamál sem hv. þm. las hér upp í því skyni að reyna að sannfæra okkur um að stefna flokksins í þeim málum sem við erum hér að reyna að fjalla um, m.a. flutningsmálin, væri skýr. Þó liggur fyrir að þar var alls ekki talað um neitt með skýrum rómi, öðru nær. Það væri enginn vandi fyrir þennan flokk að toga þetta út og suður og reyna að komast að mismunandi niðurstöðu. Það er alveg augljóst mál að stefna flokksins í þessum málum er mjög óskýr. Það getur vel verið að hv. þingmaður reyni að skýla sér á bak við að hér sé einhver tilraun til þjóðarsáttar um þessi mál og þess vegna leggi flokkurinn fram þessa þáltill.

En það verður bara að segjast eins og er að þessi tillaga er auðvitað ekki stefnumótandi með einum eða neinum hætti. Hér er verið að leggja til --- hvað? Í fyrsta lagi að skipa nefnd. Og hvað á nefndin að gera? Hún á að gera nokkurn veginn það sama og þessi hérna, nefndin um flutningskostnað. Þegar við lesum tillögugreinina sjálfa, það er auðvitað tillögugrein sem máli skiptir, segir svo, með leyfi virðulegs forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd sem hafi það hlutverk að kanna þróun vöruverðs og rekstrar- og samkeppnisstöðu atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni`` --- o.s.frv.

Hér segir í þessu plaggi, með leyfi virðulegs forseta:

,,Ríkisstjórnin fjallaði um flutningskostnað á fundi haustið 2001 og í framhaldi af því ákvað samgönguráðherra að skipa starfshóp`` --- að vísu starfshóp en ekki nefnd --- ,,er skyldi fjalla um almennan flutningskostnað, miðað við þarfir atvinnulífsins.`` --- Nokkurn veginn sama verkefnið.

Hv. þm. gerði mjög lítið úr niðurstöðum þessarar skýrslu. Það má örugglega ýmislegt að henni finna en þar er þó a.m.k. leitast við að draga saman upplýsingarnar og í öðru lagi að koma fram með ábendingar um hvað hægt væri að gera, hvaða leiðir væru færar til þess að reyna að jafna flutningskostnaðinn. Það er það sem ríkisstjórnin hefur gert. Hún hefur falið fólki að fara í að útfæra þetta nokkru frekar og það er auðvitað mjög virðingarvert og þýðingarmikið.

Ég er alveg sammála því sem stundum hefur verið sagt. Við erum auðvitað búin að fá yfir okkur þvílíka dembu af skýrslum að það hálfa væri oft og tíðum nóg. Þess vegna held ég, satt að segja, virðulegi forseti, að enn ein nefndin ofan á allar hinar frá Samfylkingunni um þetta mál mundi voðalega lítið gagn gera.

Það sem þessi skýrsla aftur á móti dregur fram er að ýmislegt af því sem sagt hefur verið um flutningskostnaðarmál er ekki rétt. Menn hafa t.d. látið í veðri vaka að þungaskatturinn og hækkun hans skýri að öllu leyti þá hækkun sem orðið hefur á flutningskostnaði í landinu. Það er ekki rétt. Þessi skýrsla sýnir fram á það. Þar eru aðrir þættir á ferðinni, aðrir orsakaþættir sem við verðum að líta á þegar við veltum þessu fyrir okkur. Það sem er auðvitað mikilvægt um þessa skýrslu að segja er að hún hefur a.m.k. ýtt burtu enn einni goðsögninni um þessi mál. Menn verða þá a.m.k. að reyna að tala út frá einhverjum staðreyndum en ekki upphrópunum um þetta mál.

Eins og hv. 1. þm. Norðurl. e. minnti okkur á var gerð breyting, illu heilli, á þungaskattskerfinu. Við vorum neydd til þess vegna þess að það var álit úrskurðaraðila að við mættum ekki hafa það fyrirkomulag sem áður hafði verið, þar sem gefinn var afsláttur ef bílar voru búnir að keyra yfir 90 þús. km eða þar um bil. Þessi breyting var mjög vond fyrir landsbyggðina en hún var eitthvað sem við réðum ekki við vegna þess að okkur var sagt að þetta samrýmdist ekki Evrópureglum. Það voru gerðar tvær atrennur í þinginu, að ég hygg af þingmönnum allra flokka, til að reyna að bregðast við þessu og útfæra með öðrum hætti þannig að við gætum búið við þetta. Það reyndist ekki mögulegt. Við vorum gerð afturreka með málið og urðum því miður að setja upp það kerfi sem nú er í gildi þar sem ekki er um að ræða þennan afslátt sem gagnaðist landsbyggðinni svo mikið.

Virðulegi forseti. Menn hafa talað utan af því hvort það ætti að beita jöfnunaraðgerðum í gegnum skattkerfið. Ég hef alveg viljað skoða þá hugmynd og hef gert áður. Ég hef hins vegar skynjað að gegn þessari hugmynd er mikil andstaða. Um hana komu m.a. fram efasemdir frá einum hv. þm. Samfylkingarinnar áðan. Ég hygg að þessi andstaða sé víða úti um þjóðfélagið vegna þess einfaldlega að menn telja að þetta verði til að eyðileggja skattkerfi okkar, ýta undir mismunun og misnotkun.

Virðulegi forseti. Ég hef þess vegna litið svo á að þessi leið sé illfær, ekki vegna þess að ég vilji ekki skoða hana heldur vegna þess einfaldlega að það er mikil andstaða við hana. Það eru margir sem telja að hún mundi gera illt verra. Þess vegna hef ég viljað, virðulegi forseti, líta á þetta öðrum augum. Ég hef sagt: Markmiðið með slíkum hugmyndum um skattalegar ívilnanir hefur eingöngu verið að bæta lífskjörin á landsbyggðinni. Út á það gengur þessi umræða. Þess vegna er miklu skynsamlegra og eðlilegra að nýta þær leiðir sem við þekkjum og erum orðin kunnug, þ.e. að beita beinum jöfnunaraðgerðum, alveg eins og við höfum verið að gera með góðum árangri, bæði varðandi húshitunarkostnaðinn og námskostnaðinn. Ég hef talið eðlilegt að við færum í að útfæra hugmyndir úr nefnd sem ég og hv. 1. flm. þessa plaggs sátum í. Það var góð nefnd og lagði m.a. það til að við mundum útfæra endurgreiðslukerfið varðandi námslánin þannig að það væri ívilnandi fyrir fólk sem byggi á landsbyggðinni. Líka gegn þessari hugmynd risu menn öndverðir, m.a. í námsmannahreyfingunni, m.a. í flokkum hv. flm. þessa plaggs. Það er auðvitað ekki hlaupið að því. Það er þó alltént komið það lengra að þetta er orðinn hluti af byggðaáætlun ríkisstjórnarinnar sem samþykkt var hér á Alþingi þó að það hafi ekki verið gert með mínu atkvæði í sjálfu sér.

Virðulegi forseti. Mig langaði aðeins að vekja athygli á þessu. En af því að tíminn líður hratt og maður verður að stikla mjög á stóru í þessari umræðu vil ég segja, af því að ég kom því ekki að í umræðu um þessi mál í gær þegar ég bar fram fyrirspurn varðandi flutningskostnaðinn til að varpa ljósi á það þýðingarmikla mál, að það sem kemur fram í þessari skýrslu er að m.a. vegna fákeppni hefur flutningskostnaður hækkað meira en sem svarar þróun vísitölu neysluverðs. Þetta er auðvitað alvarleg ábending sem liggur fyrir. Verðum við þá ekki að reyna að bregðast við þessu með einhverjum hætti? Verðum við þá ekki að gera einhverjar ráðstafanir sem gera það að verkum að við náum að stuðla að meiri samkeppni? Það er auðvitað samkeppni á mörgum sviðum flutningsmála. Við vitum að flutningsfyrirtækin eru ekkert ofhaldin. Öðru nær. Það þekkjum við alveg, m.a. af einyrkjunum sem eru starfandi í þessari grein.

Það sem mér sýnist hafa gerst í þeim efnum er að samkeppnin er þarna á mjög þröngu sviði. Í ákveðnum flutningsgreinum, t.d. í flutningi á ferskum fiski, er sannarlega mikil samkeppni. Hún er á ýmsum öðrum sviðum en einstaklingar, litlar verslanir og ýmsir aðrir á landsbyggðinni njóta þess ekki vegna fyrirkomulags sem bent er á í þessu plaggi samgrn. Ég tel því að samkeppnisyfirvöld, og nú vildi ég gjarnan biðja hv. 1. flm. þessa plaggs að hlusta, eigi að hlutast til um það og banna að sama fyrirtæki geti starfað á mörgum flutningastöðvum, að menn geti verið umboðsaðilar fyrir bæði Samskip og Flytjanda á sama samkeppnissvæðinu, auðvitað með undantekningum á þeim svæðum þar sem um er að ræða litla starfsemi þar sem tiltölulega fáir búa og ekki er svigrúm til þessarar samkeppni. Ég teldi t.d. mjög eðlilegt að samkeppnisyfirvöld hlutuðust til um það, í því skyni að reyna að örva samkeppni, að koma í veg fyrir að menn gætu starfað þannig, til að mynda á stórum flutningasvæðum á sömu stöðinni, og hindrað eðlilega samkeppni á þessu sviði. Þetta væri auðvitað innlegg í málið og væri fróðlegt að heyra viðhorf hv. þingmanna til þess. Mér er kunnugt um að Samkeppnisstofnun hefur því miður ekki treyst sér til að ganga til þess verks þó að eftir því hafi verið leitað.