Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 16:10:59 (3605)

2003-02-06 16:10:59# 128. lþ. 74.8 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[16:10]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri ekki lítið úr áhrifum af skattheimtu hins opinbera á flutningskostnað í landinu. Mér er ljóst að hún hefur sín áhrif. Þó vekur það athygli mína að á bls. 17 í skýrslu sem margoft er búið að tala um, skýrslu frá hæstv. samgrh. um flutningskostnað, er tafla eða súlurit sem sýnir hlutfall flutningskostnaðar af heildarsölu tveggja verslunarsamsteypa fyrri hluta ársins 2002. Taki ég t.d. Vestfirði er hlutfallið innan við 1% og Eyjafjarðarsvæðið innan við 1%. Ég verð að játa, virðulegi forseti, að þetta kom mér dálítið á óvart því ég hafði satt að segja gert ráð fyrir að hlutfallið væri nokkru hærra, hefði meiri áhrif á vöruverðið á landsbyggðinni en raun ber vitni.

Þetta þýðir ekki að þetta hafi ekki einhver áhrif. Þetta hefur sannarlega áhrif. Eins og hv. þm. vakti athygli á þá er verið að innheimta heilmikinn þungaskatt af þessum fyrirtækjum. Mér er það mætavel ljóst að þau eru alls ekki ofhaldin af sínu rekstrarumhverfi. Það er auðvitað þess vegna, virðulegi forseti, sem sú nefnd sem hér um ræðir, sem var að skila af sér þessari athyglisverðu skýrslu, kemst að þeirri niðurstöðu að hyggja þurfi að því að lækka flutningskostnað og leggur fram ákveðna tillögu í því skyni. Nefndin fer yfir ýmsa kosti og galla á tilteknum leiðum, m.a. þeirri að beita virðisaukaskattsaðferðinni, sem menn hafa haft orð á í þessari umræðu. Starfshópurinn kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu að það sé ekki skynsamleg leið og leggur fram aðra hugmynd.

Auðvitað geta menn deilt um hvaða hugmynd nákvæmlega eigi að leggja upp með. En það liggur þó fyrir að eftir að menn hafa farið rækilega ofan í flutningskostnaðinn eru uppi hugmyndir um hvernig hægt sé að nálgast þetta mál. Þannig erum við komin nokkrum skrefum lengra en áður en við lögðum af stað í þessa vegferð og fórum að skoða málin skipulega í gegnum þessa nefnd.