Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 16:13:05 (3606)

2003-02-06 16:13:05# 128. lþ. 74.8 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., Flm. KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[16:13]

Flm. (Kristján L. Möller) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. vitnar hér í bls. 17, um flutningskostnað hjá verslunarsamsteypum á Norðurlandi. Það er vafalaust hárrétt sem þar kemur fram. Nú er það svo að maður má ekki nefna nöfn á fyrirtækjum. En í mínum trúnaðarupplýsingum sem ég hef fengið hef ég séð þann lægsta flutningskostnað sem ég þekki á flutningi til landsbyggðarinnar hjá stórum verslunarkeðjum sem m.a. starfa á Akureyri. Það er það allra lægsta sem ég hef nokkurs staðar séð. Ef allir byggju við þann flutningskostnað værum við ekki að takast á við þennan vanda. Þá væri þetta ekki vandamál. Þessu skulum við halda til haga.

Ég sagði áðan, herra forseti, að um leið og dregur að lokum umræðu um þetta ágæta þingmál vildi ég staldra töluvert við þá tillögu sem ég hef fengið frá aðilum í þessari grein og öðrum. Við getum spurt: Hvað mundi gerast ef ríkisvaldið og Alþingi Íslendinga stigi það skref til að koma til móts við landsbyggðarfólk og atvinnurekstur á landsbyggðinni, að stuðla að lækkun flutningsgjalda með því að lækka eða afnema hina ýmsu skatta sem ríkisvaldið leggur á flutningastarfsemi í landinu? Það er hægt og það er er leyfilegt. Eftirlitsstofnun EFTA mundi aldrei banna okkur þetta. Hún getur það ekki. Eftirlitsstofnun EFTA hefur reyndar samþykkt ýmislegt í Noregi og Svíþjóð sem kemur á óvart.

Ungir sjálfstæðismenn notuðu stundum slagorð sem mig minnir að hafi verið á þessa leið: Báknið burt. Þeir vildu minnka álögur og minnka þátttöku ríkisins í ýmsu. Ég get að þessu leyti tekið undir það, herra forseti. Ég er sammála ungum sjálfstæðismönnum hvað þetta varðar. Ef við lítum á 50% skattheimtu af flutningastarfsemi í landinu sem bákn sem íþyngir landsbyggðarfólki þá mundi ég vilja taka þátt í því að afleggja það bákn.

Herra forseti. Rétt í lokin, vegna þess að komið er að lokum þessarar umræðu, vil ég þakka þeim þingmönnum sem hafa tekið þátt í henni. Þessu máli verður vísað til nefndar. Umræðan heldur vonandi áfram vegna þess að ég hverf ekki frá því, herra forseti, sem ég hef áður sagt. Þetta eitt brýnasta úrlausnarefni í byggðamálum á Íslandi í dag, að lækka flutningskostnað til og frá landsbyggðinni, lækka vöruverð og auka samkeppnishæfni fyrirtækja á landsbyggðinni.