Bætt staða þolenda kynferðisafbrota

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 16:31:18 (3608)

2003-02-06 16:31:18# 128. lþ. 74.10 fundur 65. mál: #A bætt staða þolenda kynferðisafbrota# þál., KolH
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[16:31]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Kynferðisleg misnotkun á börnum og kynferðislegt ofbeldi sem börn þurfa að þola í samfélagi okkar er einn alstærsti smánarbletturinn sem samfélagið þarf að burðast með. Þess vegna lýsi ég því yfir, herra forseti, að ég styð heils hugar þá tillögu sem hér er til umfjöllunar, till. til þál. um bætta stöðu þolenda kynferðisafbrota. Það er allsendis með ólíkindum að okkur skuli ekki hafa tekist að vinna betur í þessum málum og ná meiri árangri með þá vinnu sem þó hefur farið fram.

Eins og hv. frsm., Jóhanna Sigurðardóttir, rakti hefur þetta mál komið fyrir þingið áður. Mál þessu tengd hafa komið fyrir þingið í áravís og í sannleika sagt er þetta orðið dálítið ankannalegt að róðurinn í þessum málaflokki skuli vera jafnþungur og raun ber vitni.

Í sjálfu sér mætti segja að hv. þm. ættu ekki að þurfa að vera að flytja tillögur af þessu tagi hér árið 2003, og það eitt að tillagan skuli vera flutt og að full þörf skuli vera fyrir hana segir auðvitað sína sögu um ástand mála í samfélaginu.

Eins og kom fram í máli hv. þm. ræddum við í morgun frv. hæstv. dómsmrh. varðandi breytingar á almennum hegningarlögum og auðvitað koma þar fram ákveðnir hlutir sem varða þyngingu refsinga sem lúta að kynferðislegu ofbeldi gagnvart börnum. Í þeirri umræðu sem þá fór fram sagði hæstv. dómsmrh. að hún ætlaði að fela refsiréttarnefnd það að fara að endurskoða allan kynferðisbrotakafla laganna.

Ég hef ekki setið lengi á þingi, herra forseti, en ég hef heyrt hæstv. dómsmrh. segja þetta áður. Ég held að um tvö ár séu síðan ég heyrði hana segja þetta fyrst. Og ég segi: Hvers vegna í ósköpunum þufum við, þing og þjóð, endalaust að bíða eftir úrbótum í þessum málaflokki? Það er ekki forsvaranlegt, það er ekki hægt að sætta sig við það mikið lengur.

Það er löngu vitað að endurskoða þarf allan kynferðisbrotakaflann og gera þarf ítarlegar rannsóknir á öllum dómafordæmum. Við vitum nógu mikið til þess að geta fullyrt að málum er að fjölga, kærum er að fjölga, og málum sem fara fyrir dómstólana er að fjölga en dómum og sakfellingum fækkar, standa í stað eða fækkar. Það höfum við fengið kortlagt í þingskjölum, í fyrirspurnum sem lagðar hafa verið fyrir hæstv. dómsmrh., og þær vísbendingar sem við höfum í svörum sem hæstv. dómsmrh. hefur gefið sýna okkur að hér er gífurlegt verk að vinna og það þarf engan slóðaskap. Það er skömm að slóðaskapnum sem hefur viðgengist í þessum málum.

Varðandi þann þátt þáltill. sem lýtur að lágmarksrefsingum í þessum þungu málum vil ég lýsa því yfir að mér þykir hugmyndin og umræðan um lágmarksrefsingar vera mjög þörf. Við vitum að í Skandinavíu, þeim löndum sem við berum okkur saman við og þeim löndum sem við í raun og veru teljum okkur sækja löggjöf okkar til, eru lágmarksrefsingar við kynferðisbrotum gegn börnum alls staðar nema í Danmörku. Og það er auðvitað ekki eðlilegt að íslensk stjórnvöld skuli ekki hafa svör við því hvers vegna það hafi ekki verið rætt á vettvangi ríkisstjórnarinnar að taka upp lágmarksrefsingar. Hæstv. dómsmrh. hafði ekki svör við þessu í umræðunni sem fór fram hér í morgun.

Í tilefni af umræðum um þessa þáltill. langar mig til að draga fram aðra þáltill. sem er um tengt efni og er flutt af þingmönnum þvert á flokka. Þetta er þáltill. um aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun og framboði ofbeldisefnis sem finna má á þskj. 798. Flutningsmenn hennar eru hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, Guðjón A. Kristjánsson, Katrín Fjeldsted, Jónína Bjartmarz og Sigríður Jóhannesdóttir. Og það verður að segjast eins og er, herra forseti, að ef farið yrði nú að því sem lagt er til í þessum tveimur tillögum, þ.e. annars vegar að skipa nefnd sérfræðinga sem kanni og geri tillögur um bætta stöðu þolenda kynferðisbrota og svo í framhaldi það sem getið er um í tillögunni sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir mælti fyrir, ásamt með því sem sú tillaga sem ég nú hef dregið fram felur í sér, þ.e. að álykta að fela ríkisstjórninni að undirbúa áætlun um aðgerðir til að draga úr framboði efnis þar sem ofbeldi, þar með talið kynferðisofbeldi, er sýnt í einhverju formi þá værum við að gera eitthvað sem skiptir máli. Því að sannleikurinn er auðvitað sá að þjóðfélag, sem er búið að taka í burtu alla þröskulda sem hafa hingað til verið til staðar í samfélaginu og hafa stemmt stigu við efni sem hefur upp á að bjóða kynferðisofbeldi og annað ofbeldi, það er auðvitað til vansa fyrir okkur að efni af þessu tagi skuli vera til staðar í jafnmiklum mæli og raun ber vitni. Sú staðreynd á auðvitað sinn þátt í þeim grófu afbrotum sem eiga sér stað í samfélaginu, ekki hvað síst í garð barna.

Herra forseti. Ég hef lýst skoðunum mínum varðandi þessa þáltill. og ég sé ekki annað en að hægt væri að afgreiða hana með hraði úr allshn. og ég vona sannarlega að þingið eigi eftir að fá tækifæri til þess sem allra fyrst að greiða um hana atkvæði og þá treysti ég því að það verði einróma jákvætt.