Rannsókn á áhrifum háspennulína á mannslíkamann

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 17:32:06 (3617)

2003-02-06 17:32:06# 128. lþ. 74.19 fundur 141. mál: #A rannsókn á áhrifum háspennulína á mannslíkamann# þál., Flm. DrH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[17:32]

Flm. (Drífa Hjartardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um rannsóknir á áhrifum háspennulína, spennistöðva og fjarskiptamastra á líkamann. Flutningsmenn auk mín eru Árni Ragnar Árnason, Ásta Möller, Vilhjálmur Egilsson, Sigríður Anna Þórðardóttir, Katrín Fjeldsted, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Guðjón Guðmundsson og Arnbjörg Sveinsdóttir.

Tillagan hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að standa fyrir faraldsfræðilegri rannsókn á mögulegum áhrifum háspennulína, spennistöðva og fjarskiptamastra á mannslíkamann, sérstaklega með tilliti til nýgengis krabbameins.

Rannsóknin verði framkvæmd á næstu tíu árum og niðurstöðum hennar skilað fyrir 1. október 2012.

Ráðherra gefi Alþingi skýrslu um niðurstöður rannsóknarinnar strax að henni lokinni.``

Herra forseti. Erlendar rannsóknir leiða æ meiri líkur að því að rafsegulsvið hvers konar, eða rafmengun, geti haft alvarleg áhrif á heilsu og líðan fólks og jafnvel valdið krabbameini. Umræðan um rafsegulsvið og áhrif þess á mannslíkamann eykst stöðugt og undanfarin ár hafa augu almennings og fræðimanna beinst æ meira að umhverfi okkar til að skoða hvort orsakir sjúkdóma og vanheilsu sé að finna þar, þ.e. hvort rafmagnsmannvirki geti valdið heilsutjóni hjá þeim sem búa í nágrenni þeirra.

Opinber bresk stofnun hefur viðurkennt opinberlega að tengsl geti verið milli krabbameinstilfella og háspennulína. Rannsóknir framkvæmdar af faraldsfræðingnum Richard Doll leiddu í ljós að börn sem búa í grennd við háspennulínur eiga frekar á hættu að fá krabbamein en önnur börn. Rannsóknarhópur í háskólanum í Toronto í Kanada og Hospital for Sick Children tilkynnti að rannsóknir hefðu sýnt að börn sem búa við há gildi rafsegulsviðs eiga frekar á hættu að fá hvítblæði en börn sem búa ekki við slík skilyrði. Mælingar á heimahögum veikra barna leiddu í ljós að tvisvar til fjórum sinnum meiri líkur væru á að börn með hvítblæði hefðu búið við há gildi rafsegulsviðs.

Jafnframt hafa faraldsfræðilegar rannsóknir Dana og Svía sýnt fram á tengsl milli hvítblæðis í börnum og búsetu í nálægð við rafmagnsmannvirki. Hið sama kann að gilda um fullorðna, en það er ekki vitað fyrir víst. Því er tímabært að hér á landi verði framkvæmd faraldsfræðileg rannsókn á áhrifum háspennulína, spennistöðva og fjarskiptamastra á mannslíkamann, sérstaklega með tilliti til nýgengis krabbameins. Lagt er til að rannsóknin verði framkvæmd á næstu tíu árum og niðurstöður hennar kynntar Alþingi eigi síðar en 1. október 2012. Flutningsmenn benda á að slík rannsókn geti farið fram á vegum landlæknisembættisins og hugsanlegt er að hún geti verið afturvirk að einhverju leyti.

Herra forseti. Mig langar til að vitna í viðtal við Helga Geirharðsson sem kom í Morgunblaðinu 3. mars árið 2002.

Yfirskriftin er: Hannað til að koma í veg fyrir rafmengun.

Nýbygging Marels reis við Austurhraun í Garðabæ og arkitektinn er Ingimundur Sveinsson. Sú bygging er sérstaklega hönnuð og uppbyggð með það fyrir augum að svokölluð rafmengun valdi ekki vanlíðan starfsfólks eða truflun í rafmagnskerfi. Í viðtalinu segir, með leyfi forseta:

,,Nýbyggingin er langt komin og er stefnt að því að Marel flytji starfsemi sína þangað í júní næstkomandi. Að sögn Helga Geirharðssonar, verkefnisstjóra Marels við bygginguna, eru fjölmörg atriði sem hugað hefur verið að í þessu sambandi. ,,Til dæmis hafa allir lampar, sem eiga að koma í húsið, verið sérstaklega prófaðir út frá þeirri rafmengun sem þeir skapa. Eins höfum við fengið fyrirtæki til að hanna sérstaklega allar jarðbindingar og allar lagnaleiðir þannig að það myndist ekki óæskileg segulsvið í húsinu. Síðast en ekki síst höfum við gert miklar ráðstafanir til að búa til mjög góða jarðtengingu fyrir húsið þannig að öll rafmagnsmengun eigi góða leið niður í jörð,`` segir hann og undirstrikar að trúar- eða töfrabrögð komi þarna hvergi nærri heldur sé um hreina og klára rafmagnsfræði að ræða.

Hann segir rafmagnsmengunina geta valdið bæði vanlíðan hjá fólki til lengri tíma sem það eigi kannski erfitt með að útskýra. Því hafi verið ákveðið að leggja sérstaka áherslu á þetta atriði í byggingu hússins. ,,Við vitum um dæmi þar sem menn hafa ekki gert það og lent í alls konar vandræðum, bæði hvað varðar vanlíðan starfsfólks og rekstur á tölvukerfum.`` Það er ekki síst lýsingin í húsinu sem sérstaklega er hugað að í þessu sambandi.

Brynjólfur Snorrason, sem er með fyrirtækið Lífafl á Akureyri, fékk svo þessa lampa og mældi hvaða áhrif hver lampi um sig hafði á rafkerfið og hvernig hann mengaði út frá sér í nánasta umhverfi. Út frá þeim upplýsingum þurftum við síðan að hafna nokkrum lömpum sem olli því að þessi framleiðandi kom með nýjar lausnir. Sem dæmi um þetta nefnir hann lýsinguna í vinnusal nýja hússins sem byggist á nýrri tækni sem ekki hefur verið til í heiminum áður og Marel því fyrsti aðilinn sem tekur hana í notkun.

Helgi segir þessa hugsun á bak við uppbyggingu hússins nýmæli hér á landi því þetta sé í fyrsta sinn sem hús er sérhannað að þessu leyti. ,,Í Ameríku eru menn kannski komnir lengra í að skoða í rafmagn í svona húsum heldur en t.d. í Evrópu. Við höfum heyrt að þær kröfur sem við erum að setja séu sambærilegar og menn gera varðandi dýragarða annars vegar og hjá bandaríska hernum hins vegar.````

Hér með lýkur tilvitnun í þessa grein í Morgunblaðinu.

Herra forseti. Mig langar líka að geta um svar sem ég fékk frá hæstv. heilbrrh. um nýgengi krabbameins á 126. þingi. Í svari ráðherra segir:

,,Skipuleg skráning krabbameina á vegum Krabbameinsskrár Krabbameinsfélags Íslands hófst árið 1954 þannig að hægt er að skoða breytingar á tíðni krabbameina í meira en fjóra áratugi. Á þessu tímabili hefur tíðni krabbameina í heild aukist um 1,2% á ári, að teknu tilliti til fjölgunar íbúa og breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar. Miklar breytingar hafa orðið á tíðni einstakra meina. Tíðni krabbameins í blöðruhálskirtli hefur nær fimmfaldast og er þetta mein fyrir nokkru orðið algengasta krabbamein karla. Þessa fjóra áratugi hefur brjóstakrabbamein verið algengasta krabbamein kvenna, en það er nú tvöfalt algengara en við upphaf skráningarinnar. Tíðni lungnakrabbameins hjá körlum hefur nær þrefaldast og meira en fjórfaldast hjá konum, en heldur er farið að draga úr aukningunni. Tíðni magakrabbameins er nú aðeins þriðjungur af því sem áður var og er það meðal annars þakkað breyttum neysluvenjum. Þá er tíðni leghálskrabbameins aðeins þriðjungur af því sem var um skeið, en það skýrist af leit að sjúkdómnum á forstigi.

Um 1.040 krabbamein eru greind hér á landi á ári, 530 hjá körlum og 510 hjá konum, samkvæmt tölum frá Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands, en þær miðast við meðaltal áranna 1995--99. Alls greinast 147 karlar með krabbamein í blöðruhálskirtli, 57 með lungnakrabbamein, 48 með ristilkrabbamein, 35 með krabbamein í þvagblöðru og 28 með magakrabbamein, svo að fimm algengustu meinin séu talin. Meðal kvenna var brjóstakrabbamein langalgengast. Ár hvert greinast 135 slík mein, 49 lungnakrabbamein hjá konum, 37 ristilkrabbamein, 27 eggjastokkakrabbamein og 24 krabbamein í legbol.

Spáð hefur verið að eftir áratug muni greinast 1.300--1.400 ný tilfelli af krabbameini hér á landi á hverju ári.``

Einnig var athyglisvert að í svari frá hæstv. ráðherra kom fram að þegar tekið er tillit til aldurssamsetningar þjóðarinnar eftir landshlutum, þá er nýgengi krabbameins hærra í Reykjavík og á Reykjanesi en annars staðar á landinu og er það í samræmi við stöðu mála í nálægum löndum og það gerir trúlegast þéttbýlið.

Herra forseti. Ég tel að tillagan sé mjög þess virði að hún fái góða umfjöllun í hv. heilbrn. og hún fái afgreiðslu þaðan. Tillaga sama efnis var lögð fram bæði á 126. og 127. löggjafarþingi, en komst ekki á dagskrá og er því lögð fram að nýju.

Að lokinni umræðu óska ég þess að tillagan verði send til hv. heilbrn. og síðari umr.