Rannsókn á áhrifum háspennulína á mannslíkamann

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 17:42:15 (3618)

2003-02-06 17:42:15# 128. lþ. 74.19 fundur 141. mál: #A rannsókn á áhrifum háspennulína á mannslíkamann# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[17:42]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil lýsa sérstökum stuðningi við þetta mál og fagna því að það skuli vera komið fram og vil þakka hv. 1. flm., Drífu Hjartardóttur, fyrir að hafa haft forgöngu um það. Það er flutt af alls níu þingmönnum. Um er að ræða mál sem ég held að hljóti að njóta stuðnings þingmanna úr öllum flokkum.

Þingmálið gengur út á það að fram fari faraldsfræðileg rannsókn á mögulegum áhrifum háspennulína, spennistöðva og fjarskiptamastra á mannslíkann sérstaklega með tilliti til nýgengis krabbameins. Í grg. með frv. og í máli hv. 1. flm. var vísað í kannanir sem gerðar hafa verið á erlendri grundu, í breska könnun sem hefur sýnt fram á að tengsl geti verið milli krabbameinstilfella og háspennulína og einnig í rannsóknir sem Danir og Svíar hafa gert sem sýna fram á tengsl milli hvítblæðis í börnum og búsetu í nálægð við rafmagnsmannvirki.

Einnig kemur fram í grg. að það eru ekki aðeins sjúkdómar sem menn horfa til, heldur einnig vanlíðan eða hugsanleg vanlíðan af völdum áhrifa frá slíkum spennistöðvum.

Eitt sem ég velti fyrir mér er hvort sá tímarammi sem ætlaður er til slíkra rannsókna sé nokkuð rúmur. Menn tala þarna um áratug, að birtar verði niðurstöður 2012. Ef til vill er annað ekki raunsætt. Ég velti því líka fyrir mér hvort hægt er að finna einhverjar aðrar leiðir til að taka á þessum málum sem iðulega er vísað frá í hálfkæringi sem einhverri bábylju. Það er alveg ljóst að sumt fólk er miklu næmara en annað fyrir slæmum áhrifum af rafsegulssviðinu, ég kann nú varla að tala um þetta af nokkru viti, en hætt er við því að málinu sé einfaldlega vísað frá sem einhverju óútskýranlegu og jafnvel sem bábylju.

Ég hef átt þess kost að ræða við fjölmargt fólk sem er mjög næmt fyrir rafsviðinu og sumir meira að segja mjög illa haldnir. Ég þekki það líka af eigin reynslu af vinnustað sem ég hef starfað á að þar kom upp tilfelli þar sem nánast var ekki hægt að vinna í húsinu vegna rafmagnsbylgna. (Gripið fram í.) Það tókst um síðir að einangra vinnuvettvanginn frá þessu, en þetta var mjög raunverulegt.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta, enda ekki fróður um tæknileg smáatriði málsins. En hitt veit ég að nauðsynlegt er að láta framkvæma rannsókn og gera allt sem við getum til þess að grafast fyrir um hvað hér er á seyði.