Þjónustugjald á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 18:14:28 (3624)

2003-02-06 18:14:28# 128. lþ. 74.20 fundur 142. mál: #A þjónustugjald á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum# þál., Flm. ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[18:14]

Flm. (Ásta Möller) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að við hv. þm. Halldór Blöndal séum sammála um það að verulega þurfi að bæta aðstöðu á þessum stöðum og vatnssalerni ættu náttúrlega að vera sjálfsagðir hlutir sem víðast. Og þá spyr maður: Hvort kemur fyrst, hænan eða eggið? Kemur fyrst þjónustugjaldið og síðan vegurinn eða fyrst vegurinn og síðan þjónustugjaldið? Ég get í sjálfu sér alveg tekið undir það með hv. þm. að það þarf að byrja á því að leggja til ákveðið fjármagn til að bæta þjónustuna áður en þjónustugjaldið væri lagt á eða ákveðið samspil væri þar á.

En ég legg áherslu á að hér er ekki um skatt að ræða. Verið er að leggja til þjónustugjald sem verður eftir á þeim svæðum sem það verður til á. Skattur er þetta ekki, þetta er gjald fyrir þjónustu, þetta er ekki ,,góngjald`` eða ,,glápgjald``, eins og sumir hafa viljað kalla það, þannig að fólk sé að borga eingöngu fyrir það að horfa á náttúruna, öðru nær, það er að borga fyrir þjónustu sem það væntir að mæti þeim, t.d. í þjóðgörðum.

Þjóðgarðar hafa ákveðna merkingu í hugum fólks. Þjóðgarðar þýða í hugum fólks að ákveðin öryggisþjónusta sé, göngustígar séu öruggir, það séu leiðarlýsingar, það séu bæklingar, aðgangur sé að fræðasetrum, bílastæði, tjaldstæði, salerni og þvottaaðstaða. Þetta er það sem ég er að tala um að þjónustugjald standi undir rekstri slíkrar þjónustu fyrst og fremst.

Varðandi aurakarlana þá geri ég líka ráð fyrir að þeir staðir séu valdir þar sem þetta stendur undir sér. Það er náttúrlega algerlega fráleitt að fara að rukka inn þjónustugjald þar sem það gerir ekki annað en að standa undir kaupi aurakarlsins. Það er náttúrlega út úr kortinu, enda legg ég það ekki til.