Þjónustugjald á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 18:24:03 (3627)

2003-02-06 18:24:03# 128. lþ. 74.20 fundur 142. mál: #A þjónustugjald á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum# þál., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[18:24]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Þessi till. til þál. sem hér er til umræðu um þjónustugjald á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum sem flutt er af hv. þm. Ástu Möller ásamt samflutningsmönnunum Gunnari Birgissyni, Drífu Hjartardóttur, Guðmundi Hallvarðssyni, Árna R. Árnasyni og Guðjóni A. Kristjánssyni fjallar um að Alþingi álykti að fela umhvrh. að undirbúa og ákveða fyrirkomulag og innheimtu sérstaks þjónustugjalds á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum sem stæði undir uppbyggingu og þjónustu á slíkum svæðum.

Ég vil lýsa því yfir hér að ég er andvígur þessari tillögu algjörlega, tek undir gagnrýni hv. 1. þm. Norðurl. e., Halldórs Blöndals, og bendi á það að við erum algjörlega vanbúin til þess að vera með hugsun og framkvæmd af þessu tagi. Við erum engan veginn samanburðarhæf við þau lönd sem er verið að bera sig saman við. Á náttúruverndarsvæði í Kanada, sem við höfum sjálfsagt flest heimsótt, og í öðrum löndum er búið að byggja upp fyrir milljarða og milljarðatugi, bæði aðkomu og aðra þjónustu á svæðunum þannig að hér erum við kannski 20--30 árum á eftir. Þetta eru bara ósnortin víðerni. Hv. þm. Halldór Blöndal kom inn á það, ef við tölum um þjóðgarðinn í Jökulsárgljúfrum, að segja má að hér um bil sé ófært um hann. Það eru ekki nema harðsvíruðustu menn sem treysta sér til þess að keyra t.d. niður með Jökulsá að vestanverðu. Það þyrfti því að fara í svo gríðarlega fjárfestingu ef menn ættu að geta réttlætt það fyrir sér að taka einhvers konar gjald.

Ég vil benda á það líka að hv. þm. Ásta Möller talaði um að það væri sjálfsagt að borga þjónustugjald fyrir hluti eins og þvottavélar, tjaldstæði og þess háttar. Við erum í sjálfu sér ekkert að tala um það vegna þess að nú þegar er náttúrlega greitt fyrir beina þjónustu af þessu tagi. Og ef við tökum þjóðgarðana eins og í Skaftafelli og Ásbyrgi eru þar tjaldstæði sem er greitt inn á og þau skila allverulegum tekjum, það er augljóst. Innan þessara svæða er full heimild til að reka þvottaþjónustu, eins og gert er t.d. á tjaldstæðunum á Akureyri, og þá er greitt fyrir slíka þjónustu. Ég held að hér sé verið að tala um algjörlega óskylda hluti.

Eins og hv. þm. Halldór Blöndal kom inn á eru þjóðgarðarnir utan þessa daghrings frá höfuðborgarsvæði algjörlega vanbúnir og 10, 15 árum á eftir hvað varðar alla uppbyggingu miðað við það sem gerist hér. Náttúrlega er langbesta ástandið í nágrenni höfuðborgarinnar og það á reyndar að skilja undan í þáltill., þ.e. þjóðgarðinn á Þingvöllum. Þar má kannski segja að sé komið einhvers konar skikk á hlutina, þar er a.m.k. hægt að leggja bílum, fá viðunandi leiðsögn og komast um svæðið eftir göngustígum og þess háttar þó að enn sé langt í land með að þar sé um viðunandi aðstæður að ræða.

Ég tel að hugmyndin um að skattleggja ferðaþjónustuna á þennan hátt sé langt frá því að vera raunhæf og hún muni verða ferðaþjónustunni til tjóns. Sérstaklega mun hún verða ferðaþjónustunni til tjóns úti á landi þar sem þau svæði eru svo langt á eftir.

Hins vegar bendi ég á það enn og aftur að á langflestum tjaldstæðum --- ef það er hugsun manna er það þegar fyrir hendi --- er greitt fyrir beina þjónustu sem stendur til boða. Það er greitt fyrir tjaldstæðin og fyrir þjónustu á tjaldstæðum og í sumum tilfellum náttúrlega er verið að selja vörur, eins og gosdrykki og annað slíkt. Þessir hlutir eru þegar fyrir hendi.

Síðan vil ég segja það, virðulegi forseti, að umræða um lágar upphæðir er á villigötum. Samkvæmt skilgreiningunni eru lágar upphæðir taldar 200--250 kr. Við gætum t.d. tekið fimm manna fjölskyldu sem vildi fara dagstur austur um frá Akureyri, sunnudagstúr sem vel er gerlegt, og þá erum við að tala um fjölskyldu sem þyrfti að reiða fram hér um bil 4.000 kr. með því að stoppa á þessum þremur stöðum. Það er veruleg upphæð.

Ég held að við séum engan veginn á þeim tímamótum hér og nú að geta réttlætt það að fara að heimta skatta í þessum mæli af náttúruperlum okkar sem eru stærsta aðdráttarafl fyrir ferðamanninn sem kemur til landsins. Ég held að það yrði til tjóns og ég held að í raun og veru séu einu svæðin sem væri hægt að segja að stæðu undir nafni í samanburðinum við önnur land kannski grasagarðarnir í Reykjavík og á Akureyri þar sem er búið að koma hlutum þannig fyrir að fólk getur komið, gengið um og notið, og notið þjónustu o.s.frv. Það er svo mikill reginmunur á þjóðgörðum erlendis, eins og í Kanada, Bandaríkjunum og í Evrópu. Þar erum við með einingar, þó að landflæmin séu stór, þar sem hver einasti fermetri er skipulagður í þaula. Kannski má segja að í mörgum tilfellum sé vafamál orðið hvort um náttúruverndarsvæði eða náttúruleg svæði er að ræða, e.t.v. bara risastóra garða í raun og veru, svo þaulskipulagðir eru þeir. Þangað koma hundruð þúsunda og milljónir manna og um þetta gilda allt önnur lögmál.

Með þessum rökum held ég að tillagan verði ferðaþjónustunni til tjóns, sérstaklega ferðaþjónustunni úti á landi, og ég held að við eigum ekki að stuðla að því að hún fái framgang hér í þinginu.