Þjónustugjald á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 18:31:08 (3628)

2003-02-06 18:31:08# 128. lþ. 74.20 fundur 142. mál: #A þjónustugjald á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum# þál., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[18:31]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Hér er til umræðu mál sem oft hefur komið upp í umræðu um ferðaþjónustu á Íslandi, þ.e. hvort eðlilegt sé að taka þjónustugjöld á fjölsóttum náttúrurverndarsvæðum. Í fljótu bragði get ég sagt að ég er ekki hlynntur þeirri tillögu. Þetta mál hefur oft komið til tals í Ferðamálaráði. Þar eru fremur skiptar skoðanir um þetta mál eins og reyndar víðar í þjóðfélaginu og komu fram í ágætri röksemdafærslu, m.a. hjá hv. 1. þm. Norðurl. e. og reyndar 6. þm. Norðurl. e. líka. Þetta er bara alls ekki tímabært. Það er í raun sama hvert litið er á landi okkar. Við erum hreinlega ekki undir þetta búin. Það er allt annað þegar menn tala um einhvers konar þjónustu eins og tjaldstæði, gistingu, þvottaaðstöðu og þess háttar. Það er auðvitað sjálfsagt að ferðamenn greiði fyrir slíkt á sama hátt og þegar þeir fara í gufubaðið á Laugarvatni, í Bláa lónið eða eitthvað slíkt. Þá er sjálfsagt að greiða fyrir slíka þjónustu en ekki inn á þessi svæði.

Einstaklingar hafa ráðist í að byggja upp mjög myndarlega á Geysi í Haukdal, hótel, þjónustumiðstöð og síðan sýningaraðstöðu sem er til mikillar fyrirmyndar. Hlutur ríkisins í þeim efnum, þar sem kemur að Geysissvæðinu sjálfu, er alls ekki nógu góður og auðvitað mjög nauðsynlegt að taka þar til hendinni. Þess vegna er líka mjög brýnt að ríkið kaupi af einstaklingum sem eiga Geysissvæðið, þ.e. hverasvæðið, að ríkið eigi það svæði og geti stýrt umferð þar. Ég hef margoft tekið þetta mál upp í þinginu og það er auðvitað brýnt að ganga frá því sem allra fyrst. Eftir því sem fleiri eigendur verða að þessu svæði, eftir því sem tíminn líður verða eigendur þessa svæðis auðvitað fleiri. Það mun fjölga í þeirri fjölskyldu sem á þetta svæði núna og því er nauðsynlegt að ganga frá slíku.

Í Skaftafelli var komið á svona sýningaraðstöðu fyrir fáeinum árum þar sem hluti af húsnæðinu í Skaftafelli var notaður undir svona sýningaraðstöðu. Ef ég man rétt þá kostar 200--300 kr. að koma þar inn, og ferðamenn fara bara ekki þangað inn. Þeir kaupa sér þjónustu þar sem veitngaaðstaðan er en fara ekki inn á þessa merkilegu sýningu sem þar er bara vegna þess að þeir þurfa að borga þessar 200--300 kr.

Þessi umræða er auðvitað mjög nauðsynleg og þörf en í stuttu máli get ég sagt að ég tel alls ekki tímabært að ferðamenn greiði þjónustugjald á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum, m.a. vegna þess að það getur líka verið mjög dýrt að sinna því, í stafsmannahaldi og þess háttar. Ég ímynda mér að af því verði lítill gróði þegar upp er staðið.