Þjónustugjald á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 18:47:11 (3631)

2003-02-06 18:47:11# 128. lþ. 74.20 fundur 142. mál: #A þjónustugjald á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum# þál., Flm. ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[18:47]

Flm. (Ásta Möller) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil í rauninni alveg það sem hv. þm. er að segja um að hann telji að fyrst þurfi að fara fram uppbygging áður en sett er á þjónustugjald. Ég skil það fullkomlega og er í rauninni að sumu leyti sammála honum að slík uppbygging þurfi að fara fram.

Í því sambandi mundi ég vilja benda einmitt á Skaftafell. Ég sagði í ræðu minni áðan að þegar Skaftafellsþjóðgarðurinn var tekinn í notkun var hann einn fullkomnasti þjóðgarður Evrópu. Segjum sem svo að tekið hefði verið upp þjónustugjald þegar staðan var slík að hann var í góðu standi, hann var nýr, allt saman eins og best var á kosið, þá hefði slíkt þjónustugjald staðið undir viðhaldi á göngustígum og þar að auki skapað möguleika á að búa til fleiri göngustíga að fleiri svæðum innan þjóðgarðsins til þess að fólk gæti notið hans í víðtækara mæli en það gerir í dag.

Þetta er því stundum spurning hvort komi á undan eggið eða hænan. Kannski er það ákveðin óþolinmæði mín sem kemur þar til að ég vil setja þetta inn í umræðuna og tel jafnvel réttlætanlegt að taka upp þjónustugjöld áður en aðstaðan verður algjörlega fullkomin á þessum stöðum.

Um ábyrgðina á þeim sem ferðast innan slíkra svæða ef þeir verða fyrir slysum, þá hljótum við aðeins að velta fyrir okkur einmitt ábyrgð þeirra sem setja merkimiðann þjóðgarður á svæði sem stendur í rauninni ekki undir þeim kröfum sem gerðar eru til þjóðgarða. Má velta fyrir sér hvort það er bjóðandi að bjóða upp á göngustíga þar sem fólk er í hættu að renna og þess vegna fótbrjóta sig eins og hefur náttúrlega gerst.