Þjónustugjald á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 18:53:51 (3635)

2003-02-06 18:53:51# 128. lþ. 74.20 fundur 142. mál: #A þjónustugjald á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum# þál., Flm. ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[18:53]

Flm. (Ásta Möller) (andsvar):

Herra forseti. Það sem ég talaði um varðandi tjaldstæði og slíkt sneri náttúrlega einmitt að því fólki sem kýs að gista yfir daginn. En við vitum að það er fullt af ferðamönnum sem stoppar stutt, t.d. í Skaftafelli eða Dimmuborgum, eins og við höfum öll gert. Við höfum komið dagstund og notið þeirrar þjónustu sem þar er án þess að borga nokkuð fyrir. Er það ekki svo? Til dæmis í Dimmuborgum. Það er nú reyndar nokkuð síðan ég hef komið í Dimmuborgir en eins og ég man Dimmuborgir er veruleg þörf á endurbótum á því svæði. Hvar ætlar fólk t.d. að komast á salerni þar? Síðast þegar ég vissi var þar ekki salerni. Hvert fer fólk þá sem þarf að komast á salerni? Hvað fylgir þeim athöfnum? Pappír hér og þar o.s.frv. Það er nákvæmlega þetta sem ég á við. Við erum að tala leiðarvísa, við erum að tala um gönguferðir, t.d. skipulagðar gönguferðir um þetta svæði þar sem fólk getur fræðst með miklu betra móti en annars. Það fær miklu meira út úr heimsókninni á þennan stað með þessu móti.

Það er þetta sem ég á við með þjónustugjaldi, ég er ekki að tala um glápgjald. Ég er á móti glápgjaldi. En ég er með þjónustugjaldi þar sem ákveðin þjónusta stendur að baki.