Þjónustugjald á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 19:01:54 (3639)

2003-02-06 19:01:54# 128. lþ. 74.20 fundur 142. mál: #A þjónustugjald á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum# þál., Flm. ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[19:01]

Flm. (Ásta Möller) (andsvar):

Herra forseti. Það er náttúrlega algjör misskilningur að ég sé að bakka út úr tillögunni. Það er algjörlega út úr kortinu.

Hins vegar vil ég þakka fyrir þá ferð sem við höfum farið í huganum um landið hér undir kvöldmatinn. Þetta hefur verið ánægjuleg ferð um Dimmuborgir, Ásbyrgi, upp í Emstrur og Skaftafell og víða. Við höfum haft mjög mikla útsýn hér í þingsalnum um eftirmiðdaginn.

Lögð hefur verið áhersla á mikla samstöðu með hagsmunaaðilum varðandi útfærslu á þjónustugjaldi. Ég vil benda þær umsagnir sem bárust við þáltill. Ein kom t.d. frá Vegagerðinni og Vegagerðin er hlynnt þessu. Samtök sunnlenska sveitarfélaga eru hlynnt þessu. Náttúruvernd ríkisins, sem er komin inn í Umhverfisstofnun núna, er hlynnt þessu eins og kemur fram, með leyfi forseta:

,,Náttúruvernd ríkisins styður því að umhvrh. verði falið að undirbúa og ákveða fyrirkomulag innheimtu sérstaks þjónustugjalds á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum.``

Ferðamálaráð er hlynnt þessu og bendir einmitt á að þetta sé þjónustugjald en ekki aðgangsgjald og mér er kunnugt um að Samtök ferðaþjónustunnar eru hlynnt þessu að því marki að gjaldið standi undir þjónustu og þetta sé ekki aðgangseyrir.

Ég sé því ekki betur en að almenn samstaða sé meðal þjónustuaðila, meðal hagsmunaaðila varðandi þessa tillögu. Ég bakka ekki fet hér, ekki mílu, ekki kílómetra, ekki sentimetra. Hún stendur fyrir sínu.