2003-02-10 15:16:34# 128. lþ. 75.1 fundur 415#B afstaða ríkisstjórnarinnar til tillögu Frakka og Þjóðverja í Íraksdeilunni# (óundirbúin fsp.), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 128. lþ.

[15:16]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Já, tillögur Frakka og Þjóðverja eru góðra gjalda verðar, ég tek undir það með hæstv. utanrrh., og það skiptir líka máli á næstu sólarhringum, fram að fundinum í öryggisráðinu á föstudaginn, að það komi skýrt fram hjá þjóðum heims, bæði NATO-þjóðum og öðrum þeim sem taka þátt í þessari almennu umræðu, ekki síst þeim sem sitja í öryggisráðinu, að allra leiða verði leitað til þess að koma í veg fyrir stríð.

Ég geri mér alveg grein fyrir því, herra forseti, að stjórnin í Írak hefur ekki verið mjög samstarfsfús, það vitum við öll, og það verður engin eftirsjá í Saddam Hussein fari hann frá völdum. Aðalatriðið núna í þessari umræðu, hæstv. forseti, er að koma í veg fyrir átök í Írak og við hljótum að líta til öryggisráðsins um það og bíða þess að það axli þá ábyrgð að koma í veg fyrir stríð í Írak. Um það hljótum við öll hér inni að vera sammála, og það er ekki sama hvernig við endum það mál.