Skráning skipa

Mánudaginn 10. febrúar 2003, kl. 15:53:34 (3663)

2003-02-10 15:53:34# 128. lþ. 75.29 fundur 157. mál: #A skráning skipa# (þurrleiguskráning fiskiskipa) frv., Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 128. lþ.

[15:53]

Frsm. meiri hluta samgn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Minn skilningur á þessu ákvæði er sá að tilkynningarskyldan er mjög afdráttarlaus, í hvaða efnahagslögsögu hyggst útgerðin stefna skipi sínu, úr hvaða veiðistofnum á að veiða og á þeim grundvelli er heimildin til þurrskráningar gefin út. Verði breyting á því þarf að koma ný tilkynning, m.a. til sjútvrn. Á bak við það að tilkynna til sjútvrn. býr ekki síst sú hugsun að sjútvrn. er ætlað að ganga úr skugga um það að með því að veiða á skipum sem eru íslensk að uppruna í efnahagslögsögu erlends ríkis má ekki skapast sá réttur að það erlenda ríki ávinni sér síðan rétt ef tegundir verða kvótabundnar síðar meir, og þá erum við að tala um alþjóðlega stofna.