Skráning skipa

Mánudaginn 10. febrúar 2003, kl. 16:00:05 (3667)

2003-02-10 16:00:05# 128. lþ. 75.29 fundur 157. mál: #A skráning skipa# (þurrleiguskráning fiskiskipa) frv., Frsm. 2. minni hluta JB
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 128. lþ.

[16:00]

Frsm. 2. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál 2. minni hluta um frv. til laga um breytingu á lögum um skráningu skipa, með síðari breytingum.

Hv. varaformaður samgn., Hjálmar Árnason, hefur gert grein fyrir nál. meiri hlutans og þeim litlu brtt. sem þar eru lagðar til.

Frumvarp það sem hér er til umfjöllunar er endurflutt nánast óbreytt frá síðasta þingi. Frumvarpið var þá afgreitt úr nefndinni en fékk þó ekki endanlega afgreiðslu í þinginu sl. vetur.

Samkvæmt 1. gr. frumvarpsins er megintilgangur þess að heimila að íslensk skip sem skráð eru á íslenska skipaskrá séu jafnframt skráð svokallaðri þurrleiguskráningu á erlenda skipaskrá, þ.e. að skipið geti verið á skrá í tveim löndum samtímis.

Mál þetta er rekið sem mikið hagsmunamál íslenskra útgerða, en með samþykkt þess telja útgerðirnar að möguleikar þeirra aukist til að nýta skip sín erlendis. Með svokallaðri þurrleiguskráningu er skip skráð á skipaskrá erlends ríkis en er þó jafnframt skráð á íslenska skipaskrá. Í frumvarpinu eru rakin ýmis skilyrði og takmarkanir sem þessar heimildir eru háðar. Nokkuð er skerpt á þeim takmörkunum í breytingartillögum meiri hlutans, sem allar eru til bóta, en þó fer fjarri að þar sé um grundvallarbreytingar á frumvarpinu að ræða.

Fram kom í máli fulltrúa útgerðarinnar, sem komu fyrir nefndina, að kjarasamningar íslenskra sjómanna leiddu til svo mikils launakostnaðar að trauðla væri rekstrargrundvöllur fyrir sókn á fjarlæg fiskimið undir íslenskum fána og á íslenskum kjarasamningum.

Við þurrleigu færist skipið undir lögsögu fánaríkis leigutakans og gilda þá lög þess um allan rekstur skipsins, þar með talið um veiðileyfi, veiðieftirlit, öryggismál, kjaramál, tryggingamál og atvinnuréttindi. Öll þessi mál færast undir hið erlenda ríki sem skipið verður skráð hjá. Veiðireynsla sem verður til með veiðum skipsins meðan það er undir er lendum fána á þurrleigu verður veiðireynsla þess ríkis sem flaggað er undir með þurrleiguskráningu. Þannig vinnur þurrleiguskráning gegn hagsmunum sem verið hafa grundvöllur skiptingar veiðiréttar úr fiskstofnum og má nefna dæmi þar um eins og skiptingu kvótans í úthafskarfa á Reykjaneshrygg, rækju á Flæmingjagrunni, norsk-íslenska síldarsamninginn og fyrirséða skiptingu á veiðireynslu á kolmunna. Hins vegar eru veðbönd skipsins skráð hjá hlutaðeigandi þinglýsingarstjórum hér á landi. Það er að sjálfssögðu til mikilla hagsbóta fyrir útgerðina og skipaeigandann en með því gilda mismunandi reglur um áhöfn og skip. Það tel ég vera afar ósanngjarnt, virðulegi forseti, að hin íslensku lög skuli gilda um veðböndin en allt sem lýtur að öryggismálum og kjaramálum sjómanna skuli lúta þeim samningum sem eru hjá hinu erlenda ríki.

Samtök sjómanna eru mjög gagnrýnin á þessa tvöföldu skráningu skipa. Lýtur sú gagnrýni bæði að kjaramálum, öryggismálum og atvinnuréttindamálum. Erfitt verður að halda úti því skipulagi að kjara- og öryggismál breytist eftir því hvort skip er að fara út úr eða að koma inn í íslenska lögsögu. Þrýstingur mun aukast á að í áhöfn verði erlendir ríkisborgarar á allt öðrum og lélegri kjarasamningum en skylt er samkvæmt íslenskum lögum um skip undir íslenskum fána. Sjómannasambandið telur eðlilegri leið til að afla útgerðum aukinna verkefna að leita eftir samningum við önnur ríki um veiðiheimildir innan lögsögu þeirra.

Slík nálgun væri í fullu samræmi við stefnu okkar í alþjóðlegum hafréttarmálum, fiskverndar- og fiskveiðimálum. Það er reyndar sú stefna sem við höfum barist fyrir á undanförnum áratugum þegar við höfum verið að berjast fyrir rétti okkar í okkar lögsögu. Hví skyldum við þá ekki einnig vinna þannig á alþjóðlegum vettvangi? En því miður hefur sú stefna sem lögð er upp í frumvarpinu og meiri hlutinn flytur á sér alþjóðlegan sjóræningjablæ og að mati 2. minni hluta samræmist hún alls ekki áherslum Íslands í þessum málum á alþjóðavettvangi. Gildir það einnig um aðbúnað, öryggi og kjör sjómanna. Stefna Íslands á að vera sú að einu gildi hvort áhöfnin hafi íslenskt eða erlent ríkisfang. Íslensk lög skulu gilda á íslenskum skipum.

Virðulegi forseti. Með þessu nál. fylgja umsagnir meiri og minni hluta sjávarútvegsnefndar um frumvarpið frá síðasta þingi og frétt um löndunarbann á rússneska tvíflöggunartogara í Vestur-Evrópu. Enn fremur er vísað til umsagna samtaka sjómanna og útvegsmanna í greinargerð með frumvarpinu.

Annar minni hluti leggst alfarið gegn samþykkt þessa frumvarps.

Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að vitna til umsagnar minni hluta sjútvn. Alþingis sem er fylgiskjal með þessu nál., með leyfi forseta:

,,Tilurð þessa frumvarps má rekja til bréfs Landssambands íslenskra útvegsmanna til samgönguráðuneytisins, dags. 29. apríl 1999, þar sem þess var farið á leit við íslensk stjórnvöld að þau leyfðu tvískráningu íslenskra fiskiskipa. Efni frumvarpsins er í samræmi við þá ósk. Tilgangurinn er sagður vera að auka möguleika íslenskra útgerða á að nýta skip sín til verk efna erlendis. Lagt er til að heimilt verði að skrá fiskiskip þurrleiguskráningu á erlenda skipaskrá ...``

Ljóst er að frumvarpið er mjög umdeilt og skiptast hagsmunaaðilar algerlega í tvö horn. Samtök sjómanna hafa lýst þeirri skoðun að ,,útgerðarmenn séu að þrýsta á stjórnvöld um að heimila tvískráningu fiskiskipa í þeim tilgangi að fá ódýrt erlent vinnuafl til starfa á skipum sínum í samkeppni við íslenska sjómenn``. Athugasemdirnar hafa einkum snúið að tveimur atriðum. Annars vegar þeim aðstæðunum þegar skip kæmi aftur til Íslands með erlenda áhafnarmeðlimi að lokinni þurrleigu. Hins vegar að því að útgerðir noti þurrleigu til þess að stunda veiðar undir erlendum fána sem stunda mætti undir íslenskum fána, í því skyni að draga úr kostnaði við veiðarnar. Fram hefur komið að samtök sjómanna telja að við núverandi aðstæður sé opinberu eftirliti ábótavant, bæði varðandi það að erlendir sjómenn starfi á íslenskum skipum án atvinnuleyfis og varðandi þau laun sem erlendir sjómenn fái greidd. Sjómannasambandið óttast að við þurrleiguskráningu mundi þetta vandamál versna.``

Virðulegi forseti. Það ættu því að vera ærin varnaðarorð sem flutt eru af öllum launþegasamtökum, öllum stéttum þess fólks sem þessum réttindum er ætlað að ná til, þ.e. Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Vélstjórafélagi Íslands, Landssambandi smábátaeigenda, Alþýðusambandi Íslands og Sjómannasambandi Íslands. Öll þessi sambönd leggjast alfarið gegn frv. og vara við þeim skrefum sem hér er verið að stíga, þ.e. að leiða íslenska flotann út í lögsögur annarra ríkja á vissan sjóræningjahátt, á vissan hátt gegn þeirri stefnu sem við höfum haldið fram og barist fyrir og sem hefur verið flagg okkar á alþjóðlegum vettvangi, þ.e. að virða rétt annarra þjóða til fiskveiðilögsögu sinnar og fiskveiðiheimilda sinna. Jafnframt því höfum við krafist þess að réttur okkar væri einnig virtur og að þar sem fiskimið eru á opinberum hafsvæðum, á alþjóðlegum hafsvæðum, yrði líka samið bæði um vernd og nýtingu fiskstofna.

Þetta hefur verið hornsteinn íslenskrar fiskveiðistjórnarstefnu og fiskverndarstefnu og hana ættum við því, virðulegi forseti, að hafa í heiðri í stað þess að fara með þessu út í hálfgerðan sjóræningjaflotarekstur bæði hvað það varðar að sækja á önnur fiskimið og eins það að sigla undir fána annarra ríkja til þess að geta ráðið sjómenn á öðrum og þá jafnvel lakari kjörum en við annars viljum ráða íslenska sjómenn á.

Virðulegi forseti. Það er svo sem hægt að benda á dæmi. Í fylgiskjali með þessu nál. er frétt úr blaðinu Skerplu sem ber yfirskriftina: ,,Löndunarbann sett á rússneska tvíflöggunartogara í Vestur-Evrópu frá og með áramótum?`` Þessi frétt er frá 4. desember 2002. Ég held að rétt sé að vekja athygli á henni til að benda á í hvaða félagsskap við lendum þarna ef af því verður að við gerum hér út skip undir fána tveggja landa, með leyfi forseta:

,,Norsku sjómannasamtökin ætla að koma í veg fyrir að afla verði landað úr rússneskum togurum, sem gerðir eru út samkvæmt svokölluðum þurrleigusamningum, í norskum höfnum frá og með næstu áramótum.`` -- Þetta er nákvæmlega það sama og við erum að fara út í. Við ætlum að fara út í þessa þurrleigusamninga. --- ,,Önnur verkalýðs- og sjómannafélög í Vestur-Evrópu hafa lofað að gera slíkt hið sama.

Ástæðan fyrir þessu er sú að sjómannasamtökin telja að rússnesku útgerðirnar, og ekki síður norsku fyrirtækin sem í raun sjá um útgerð skipanna og sölu afurðanna, hlunnfari rússnesku sjómennina. Dæmi eru um að sjómenn á einstaka togurum hafi allt niður í 40 bandaríkjadollara í mánaðarlaun, að því er fram kemur í frétt Fiskeribladet um málið. Sú tala er reyndar svo lág að talan hlýtur að hafa misritast og að átt sé við 400 dollara eða jafnvirði um 34 þúsund íslenskra króna. Alls eru gerðir út 120 togarar frá Rússlandi samkvæmt svokölluð um tvíflöggunar- eða þurrleigusamningum sem norskir bankar eiga veð í. Oftast er um að ræða togara frá Noregi eða öðrum vestrænum ríkjum sem seldir hafa verið til rússneskra útgerðarfyrirtækja gegn því skilyrði að aflaverðmætið verði notað til að greiða niður kaup- eða kaupleiguverðið. Hafa norskir kaupsýslumenn gjarnan séð um útgerðarstjórnina.``

Virðulegi forseti. Viljum við slást í hóp með þessum aðilum sem reyna að komast til veiða á fiskveiðistofnum inn um bakdyrnar og þá slást í hóp þeirra sem fá aðstöðu til að ráða sjómenn á skertum kjörum eða kjörum sem undir hælinn er lagt hvernig eru samkvæmt samningum þeirra landa sem fánarnir verða teknir upp hjá?

Ég held að það sem er að gerast í Evrópu ætti að vera okkur víti til varnaðar hér. Þar er þegar verið að reyna að stöðva þetta sem við ætlum þarna að fara að gerast fánaberar fyrir.

Virðulegi forseti. Ef þetta frv. verður að lögum þá er það veruleg afturför hvað varðar vinnuvernd, kjör og réttindamál sjómanna. Þetta er líka veruleg afturför hvað varðar sýn okkar og stefnu varðandi nýtingu og umgengni við fiskstofnana, hvort sem er í lögsögu annarra ríkja eða á alþjóðlegum hafsvæðum þar sem við höfum lagt áherslu að unnið sé samkvæmt alþjóðlegum samningum eða tvívirkum samningum á milli ríkja. Það er sú nálgun sem við viljum.

Herra forseti. Ég tel ástæðu til þess áður en þetta frv. verður afgreitt eða samþykkt frá þinginu að aftur yrði leitað umsagnar hagsmunaaðila um málið til þess að vita hvort t.d. sjómannasamtökunum finnist hér nóg að gert í þeim brtt. sem meiri hlutinn leggur til. Ég er reyndar viss um að svo er ekki. Við erum hérna á afar hættulegri braut sem við ættum að snúa af áður en verulegt tjón hlýst af. Ég leggst því eindregið gegn því að frv. verði samþykkt, virðulegi forseti.