Skráning skipa

Mánudaginn 10. febrúar 2003, kl. 16:16:09 (3669)

2003-02-10 16:16:09# 128. lþ. 75.29 fundur 157. mál: #A skráning skipa# (þurrleiguskráning fiskiskipa) frv., Frsm. 2. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 128. lþ.

[16:16]

Frsm. 2. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel alveg í hæsta máta eðlilegt að íslensk skip og íslenskar útgerðir eigi möguleika á að stunda veiðar í öðrum hafsvæðum en hérna kringum Ísland. En þá legg ég áherslu á að það sé gert á íslenskum lagagrunni þannig að það séu ekki aðeins skipin og réttarstaða skipseigandans sem eigi að vera tryggð hér á landi, því það gerir frumvarpið, það tryggir réttarstöðu skipseigandans, það tryggir réttarstöðu útgerðarinnar gagnvart skipinu. Það á áfram að vera tryggt samkvæmt íslenskum lögum og njóta þeirra réttinda, þeirrar stöðu sem það býður upp á, en sjómennirnir eiga að vera á kjörum og réttindum sem fánaríkið, sem viðkomandi ætlar að flagga undir hinum fánanum, býður upp á. Ég hef enga trú á því að hægt sé að fylgja því eftirliti eftir héðan á fjarlæg mið og að það veiti þessum einstökum sjómönnum það öryggi sem hv. þm. Hjálmar Árnason er hér að minnast á að lögin hafi verið að skerpa á. Ég hef enga trú á því. Það er nógu erfitt að gera það þegar undir þeim lögum sem við nú búum við hvað þá heldur þegar búið verður að opna þetta með þeim hætti að þetta verði opið þarna í báða enda með þessum tvíflöggunarmöguleikum.

Ég ítreka það að þarna er verið að fara fram af miklu óréttlæti gagnvart áhöfnum skipanna, en réttindi og öryggi skipseigandans á verðmætum skipsins er tryggt áfram á Íslandi og ég tel þetta bara alranga stefnu.