Skráning skipa

Mánudaginn 10. febrúar 2003, kl. 16:19:29 (3671)

2003-02-10 16:19:29# 128. lþ. 75.29 fundur 157. mál: #A skráning skipa# (þurrleiguskráning fiskiskipa) frv., Frsm. 2. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 128. lþ.

[16:19]

Frsm. 2. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég segi fyrir mig að ég kann ekki við orðalagið ,,að notast við íslenska sjómenn``. Ég vil miklu frekar nálgast það mál á virðulegri hátt.

En hvers vegna er þá ekki verið að gera báðum aðilum jafnt undir höfði, að skipið allt fari undir lögsögu fánaríkisins? Hvers vegna eiga útgerðaraðilarnir að njóta allra hinna íslensku réttinda gagnvart skipi sínu en ekki sjómennirnir?

Þessi tvíhyggja finnst mér vera siðlaus. Ef menn vilja leggja ofurkapp á að komast inn í landhelgi annarra ríkja án þess að gera um það tvíhliða samninga eða komast í alþjóðlega fiskstofna án þess að það sé gert á grundvelli alþjóðlegra samninga, ef menn vilja leggja svona ofurkapp á að komast aftan að hlutunum með hálfgerðum sjóræningjablæ, þá er eins gott að það séu bæði skip og áhöfn sem fylgi, en það séu ekki bara sjómennirnir sem séu látnir búa við öryggisleysið, en skipið njóti allra réttinda hér á Íslandi. Því fyrir mér eru sjómenn ein mikilvægasta og öflugasta stétt manna og við erum ekki að notast við þá, við erum að njóta verka þeirra og starfa.