Skráning skipa

Mánudaginn 10. febrúar 2003, kl. 16:29:38 (3673)

2003-02-10 16:29:38# 128. lþ. 75.29 fundur 157. mál: #A skráning skipa# (þurrleiguskráning fiskiskipa) frv., Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 128. lþ.

[16:29]

Frsm. meiri hluta samgn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek auðvitað undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni um virðingu fyrir íslenskum sjómönnum og tel einmitt að með frv. aukist hugsanleg verkefni fyrir íslenska sjómenn og hygg ég að það verði kærkomið hjá mörgum þeirra.

En þá er líka rétt að benda á að mér fannst þess gæta nokkuð í orðum hv. þm. eins og hér væri verið að fara inn á nýja braut hvað varðar þurrleigu. Hún hefur verið til staðar, menn hafa afskráð skip sín af íslenskri skipaskrá og skráð þau síðan inn hjá öðrum ríkjum, siglt undir rússneskum fána við þorskveiðar á Barentshafi og undir færeyskum fána og þar fram eftir götunum, þannig að menn hafa verið að gera þetta. Það er hins vegar tímafrekt og kostnaðarsamt. Með þessu frv. og viðbótum samgn. er verið í rauninni að bæta við eftirliti, vegna þess að sá þáttur sem hér hefur verið til umræðu, þ.e. tilkynningarskyldan og það vald sem Siglingastofnun Íslands fær sem og sjútvrn., þar með er um leið verið að auka eftirlitið sem er ekki hvað þetta varðar í dag hjá þeim skipum sem hafa verið í þessari útflöggun.