Skráning skipa

Mánudaginn 10. febrúar 2003, kl. 16:34:13 (3676)

2003-02-10 16:34:13# 128. lþ. 75.29 fundur 157. mál: #A skráning skipa# (þurrleiguskráning fiskiskipa) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 128. lþ.

[16:34]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Eins og fram kom í máli mínu er ástæðan fyrir því að íslensku útgerðirnar berjast fyrir þessu frv. sú að þær telja kjör íslenskra sjómanna, kjarasamninga íslenskra sjómanna, það góða að það muni torvelda útgerðinni rekstur skipanna á fjarlægum miðum. Þeir telja sig með öðrum orðum aðeins geta boðið upp á lakari kjör en íslenskir sjómenn hafa barist fyrir og náð í kjarasamningum.

Ég vil benda á að vandinn verður þess ríkis sem fær slík aðkomuskip, þessi neikvæða samkeppni, samkeppni niður á við, bitnar á þeim aðilum sem skipin leita til eins og við höfum einnig fengið að finna fyrir þegar slík skip koma á okkar vettvang. Þar vísa ég til Eimskipafélagsins og Atlantsskipa sem hafa ekki virt íslenska kjarasamninga. Þetta fyrirkomulag kemur á endanum sjómönnum í koll og við eigum að hlusta á varnaðarorð íslenskra sjómanna.