Skráning skipa

Mánudaginn 10. febrúar 2003, kl. 17:10:14 (3678)

2003-02-10 17:10:14# 128. lþ. 75.29 fundur 157. mál: #A skráning skipa# (þurrleiguskráning fiskiskipa) frv., Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 128. lþ.

[17:10]

Frsm. meiri hluta samgn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki alveg sammála meginniðurstöðu hv. þm., enda hefði ég þá ekki sett nafn mitt undir nál. meiri hluta samgn. Ég hygg einmitt að nettóniðurstaðan af þessu sé jákvæð fyrir þjóðarbúið, hún muni styrkja útgerðir og gefa íslenskum sjómönnum möguleika á auknum tekjum.

Það er líka vert, herra forseti, að minna enn einu sinni á það að svokölluð þurrleiga er til staðar í dag og hefur verið stunduð með þeim hætti þó að menn verði að afskrá sig af skipaskrá hér á Íslandi á meðan þeir eru að veiðum undir erlendum fána og skrá sig þá hjá viðkomandi þjóðríki og síðan að skrá sig aftur inn á íslenska skipaskrá, með viðeigandi kostnaði og fyrirhöfn. Hér er í rauninni ekki um nýmæli að ræða. Það er ekkert verið að feta inn á nýjar brautir.

Hv. þm. spurði hvaða dæmi byggju þarna á bak við. Ég get í sjálfu sér ekki nefnt nein bein dæmi, enda finnst mér að löggjöf eigi að vera almenns eðlis og ég lít svo á að hér sé um löggjöf sem er almenns eðlis að ræða. Ég geri hins vegar ráð fyrir að menn hafi þarna í huga það sem hefðin er og reynslan sýnir að menn hafa farið í útflöggun á skipum, ég nefni Barentshafið og Flæmska hattinn. Hins vegar til allrar hamingju eru íslenskir sjómenn og útgerðarmenn sókndjarfir í að leita að nýjum fiskislóðum og ég þarf ekki annað en að nefna hvernig menn eltast við túnfisk suður eftir öllum hnetti má segja og jafnvel suður fyrir miðbaug. Það er því sóknarhugur bæði í íslenskum útgerðarmönnum og sjómönnum.

Hvað varðar þriggja sólarhringa regluna, um að ef menn missa þurrleiguna og fara af erlendri skipaskrá ...

Herra forseti. Ég er víst fallinn á tíma og mun þá víkja að frekari svörum í síðara andsvari.