Skráning skipa

Mánudaginn 10. febrúar 2003, kl. 17:12:32 (3679)

2003-02-10 17:12:32# 128. lþ. 75.29 fundur 157. mál: #A skráning skipa# (þurrleiguskráning fiskiskipa) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 128. lþ.

[17:12]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Já, því miður virðist málið vera unnið þannig að ekki virðist einu sinni hafa verið gengið eftir því, herra forseti, við íslenska útgerðarmenn að þeir nefndu nein dæmi í viðræðum við hv. þm. í samgn. hvar hagsmunir Íslendinga lægju sérstaklega í þessu máli. Það er ekki einu sinni hægt að draga það fram í umræðunni.

Ég ætlaði að vitna áðan í samþykkt Sjómannasambands Íslands frá sl. hausti og er búinn að fletta upp á réttri tillögu, en þar segir, með leyfi forseta, og vil víkja að því í þessu andsvari:

,,23. þing Sjómannasambands Íslands hafnar því alfarið að tvískráning fiskiskipa verði heimiluð hér á landi eins og gert er ráð fyrir í frumvarpi sem lagt hefur verið fyrir Alþingi. Með því að heimila útgerðarmönnum að skrá fiskiskip í skipaskrá annars ríkis undir þjóðfána þess, án þess að skipið sé tekið af íslenskri skipaskrá, er verið að bjóða útgerðarmönnum upp á leið til að ráða til sín ódýrt erlent vinnuafl í samkeppni við íslenska sjómenn.``

Síðan segir:

,,Reynsla undanfarinna ára hefur kennt forustumönnum sjómanna að stjórnvöld fást ekki til að taka á brotum útgerðarmanna sem reka skip undir íslenskum fána. Því síður geta samtök sjómanna vænst þess að stjórnvöld taki á málum þegar fiskiskip undir erlendum fána hlítir ekki þeim skilyrðum sem sett eru þó skipið sé skráð í íslenskri skipaskrá.``

Þessi yfirlýsing er náttúrlega afdráttarlaus, herra forseti, og kemur inn á það mál sem við vorum að ræða. Það er alveg rétt sem hér er vitnað til að við höfum setið uppi með dæmi um að ekki hefur verið tekið á lögskráningu að þessu leyti varðandi íslensk skip, herra forseti.